Erlent

Benoit Hamon reynir að blása lífi í framboð sitt

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Benoit Hamon, á samkomunni í dag.
Benoit Hamon, á samkomunni í dag. Vísir/EPA

Forsetaframbjóðandi franskra Sósíalista, Benoit Hamon, hélt í dag ræðu frammi fyrir þúsundum Frakka á leikvangi í miðbæ Parísar. Hann rær nú öllum árum að því að auka vinsældir sínar en hann hefur átt á brattann að sækja að undanförnu í skoðanakönnunum. Guardian greinir frá.

Samkvæmt skoðanakönnunum mælist Hamon með einungis um 13,5 prósent fylgi og er því töluvert á eftir þjóðernissinnanum Marine Le Pen, sem mælist með 26,5 prósent og Emmanuel Macron, sem býður fram fyrir miðjuflokkinn En Marche, en hann mælist með 26 prósent fylgi. Þá mælist Repúblikaninn Francois Fillon með 18 prósent fylgi en hneykslismál hafa leikið framboð hans grátt.

Vinstriflokkurinn Mélencon of La France Insoumise fær 10,5 prósent fylgi og því ljóst að það hefur töluverð áhrif á fylgi Sósíalistaflokksins.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika tókst Hamon að fylla leikvanginn, sem rúmar um 20 þúsund manns og var honum ákaft fagnað af mannfjöldanum er hann hélt ræðu og hvatti stuðningsmenn sína til dáða.

„Þessar kosningar eru vendipunktur fyrir Frakkland. Þessar kosningar eru ólíkar öllum öðrum. Vera ykkar hérna sendir skilaboð...allt hefst í dag. Allt hefst með ykkur. Þetta er ekki bara fyrsti dagurinn sem mun færa okkur völd, heldur fyrsti dagur breytinga í Frakklandi.“

Í ræðu sinni fór Hamon um víðan völl og gagnrýndi hann meðal annars Le Pen og Fillon vegna hneykslismála þeirra. Þá lagði hann áherslu á að hann yrði femínískur forseti og að hann myndi berjast gegn fátækt.

Fyrstu sjónvarpskappræður forsetaframbjóðenda munu fara fram næstkomandi mánudagskvöld, þar sem fimm forsetaframbjóðendur munu mætast og munu kappræðurnar taka rúmlega tvo og hálfan tíma. Fyrri umferð forsetakosninganna mun fara fram 23. apríl næstkomandi. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira