Erlent

Bandarískur erindreki rekinn frá Nýja-Sjálandi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mál erindrekans þykir allt hið dularfyllsta.
Mál erindrekans þykir allt hið dularfyllsta. Vísir/Getty
Bandarískur erindreki hefur verið rekinn úr landi í Nýja-Sjálandi, eftir að bandaríska sendiráðið þar í landi neitaði að afnema friðhelgi hans í kjölfar lögreglurannsóknar. BBC greinir frá.

Málið þykir hið dularfyllsta en talið er að umræddur erindreki hafi verið viðriðin atvik sem er til rannsóknar lögreglu þann 12. mars síðastliðinn. Lögregla vildi því fá að yfirheyra manninn en varð frá að hverfa, þar sem maðurinn hefur friðhelgi erindreka.

Slíkri friðhelgi var komið á með Vínarsáttmálanum um milliríkjasamskipti árið 1961 og kveður á um vernd erindreka í hverju ríki fyrir sig. Þar með talið fyrir áreiti lögregluyfirvalda.

Í kjölfar viðbragða sendiráðsins, fóru ný-sjálensk yfirvöld fram á það við bandarísk yfirvöld að maðurinn yrði sendur úr landi og vikið frá stöðu sinni í Nýja-Sjálandi.

Í tilkynningu ný-sjálenska utanríkisráðuneytisins vegna málsins kemur fram að yfirvöld þar í landi fari fram á að allir erindrekar í landinu fylgi lögum landsins. Ekki er ljóst hvað nákvæmlega erindrekinn á að hafa gerst sekur um en samkvæmt heimildum þarlendra fjölmiðla yfirgaf hann landið með brotið nef og glóðurauga.

Sendiráðið, sem er án sendiherra, þar sem ríkisstjórn Donald Trump á enn eftir að útnefna slíkan, segir í tilkynningu að það líti brot starfsliðs síns á landsreglum alvarlegum augum og að farið verði yfir atvikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×