Erlent

Segir gögn benda til samsæris milli Trump og Rússa

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vladimir Putin og Donald Trump, forsetar Rússlands og Bandaríkjanna.
Vladimir Putin og Donald Trump, forsetar Rússlands og Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Meðlimur þingnefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings um njósnamál, Demókratinn Adam Schiff, telur að til séu gögn sem sýni fram á tengsl starfsliðs Donald Trump við Rússa og að það hafi unnið með Rússum í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember síðastliðnum. CNN greinir frá.

Áður hafði formaður sömu nefndar og Schiff á sæti í, Devin Nunes, sagt að engin gögn hefðu komið fram sem bentu til þess að tengsl væru þarna á milli og því ljóst að starfsbróðir hans er ekki á sama máli.

Sjá einnig: Segir ekkert benda til samsæris milli Trump og Rússa

Ummælin lét Schiff falla í viðtali við NBC sjónvarpsfréttastöðina þar sem hann sagðist telja að sönnunargögn væru til staðar sem sýndu fram á samsæri milli starfsliðs Trumps og Rússa fyrir kosningarnar. Þá væru jafnframt til sönnunargögn sem sýndu fram á að reynt hefði verið að hylma yfir slík tengsl.

„Við þurfum að komast að því hvort að það umtalsverða magn sönnunargagna um samstarf þarna á milli, þýði að það séu fleiri gögn þarna úti.“

Áður hafði fyrrverandi yfirmaður njósnamála í landinu, James Clapper, sagt að hann hafi ekki séð nein gögn sem benda til beinna tengsla á milli starfsliðs Trump og Rússa. Schiff lætur sér fátt um finnast um ummæli Clapper.

„Ég var hissa á að heyra Clapper segja þetta, vegna þess að ég held að hann geti ekki fullyrt þetta með fullnægjandi hætti eins og hann gerir.“

Talið er að rannsókn þingnefnda á tengslum Trump við Rússa muni verða mjög ágengt þegar James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar mun svara spurningum þeirra næstkomandi mánudag, ásamt yfirmanni þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, Mike Rogers.

Tengsl Trump við Rússa hafa verið í brennidepli síðan að upp komst um samskipti tveggja meðlima ríkisstjórnar hans, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafans Michael Flynn og núverandi dómsmálaráðherrans Jeff Sessions, við rússneska ráðamenn á meðan kosningabaráttunni stóð.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir upplýstu um það í desember síðastliðnum að Rússar hefðu staðið að baki tölvuárása sem beindust gegn bandarískum stofnunum í aðdraganda forsetakosninganna og þannig haft áhrif á niðurstöður kosninganna, Trump í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×