Körfubolti

Óttast að Kevin Durant verði frá í nokkra mánuði

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Kevin Durant, leikmaður Golden State Warriors, fór meiddur af velli eftir 93 sekúndur í nótt þegar liðið tapaði á móti Washington Wizards í NBA-deildinni í körfubolta. Durant varð fyrir því óláni að liðsfélagi hans, Zaza Pachulia, datt á hann með þeim afleiðingum af yfirspenna kom á hnéð.

Durant fer í myndatöku í dag til að fá úr því skorið hversu alvarleg meiðslin eru en samkvæmt fréttum vestanhafs óttast Golden State-menn að ofurstjarnan verði frá í nokkra mánuði.

Silfurlið síðustu leiktíðar hefur nú þegar brugðist við en það ætlar að fá reynsluboltann Matt Barnes til liðs við sig. Hann er án liðs eftir að vera leystur undan samningi frá Sacramento í lok síðasta mánaðar.

Golden State var búið að ganga frá komu spænska bakvarðarins José Calderón og við það verður staðið. Hann verður aftur á móti leystur strax undan samningi til að búa til pláss fyrir Barnes.

Golden State er á toppnum í vesturdeildinni og með bestan árangur allra liða í NBA. Það er búið að vinna 50 leiki og tapa tíu og stefnir í að liðið verði með heimavallarrétt út úrslitakeppnina.

Fari svo að Durant missi af restinni af tímabilinu dældar það augljóslega titilvonir Golden State verulega en meistarar Cleveland Cavaliers, sem eru taldir helsti keppinautur Warriors eins og í fyrra, hafa verið að bæta við sig mönnum undanfarna daga.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira