Körfubolti

Ari: Veit af umræðu dómaranna um mig á Facebook

Kristinn Páll Teitsson skrifar
María Björnsdóttir og Mia Loyd eigast við í leiknum í kvöld en Mia fékk ódýra fimmtu villu í leiknum.
María Björnsdóttir og Mia Loyd eigast við í leiknum í kvöld en Mia fékk ódýra fimmtu villu í leiknum. Vísir/anton

„Ég er virkilega svekktur, við spiluðum þetta virkilega vel en það var mjög heimskulegt hjá erlenda leikmanninum mínum að fara útaf á villu eins og þessari,“ sagði Ari  Gunnarsson, þjálfari Valsliðsins, svekktur eftir tapið.

„Hún segist ekkert hafa sagt og dómararnir sögðu að hún hefði verið að kvarta. Svo þegar ég sóttist eftir svörum sögðu þeir að hún hefði horft skringilega á sig. Ef það er orðið að tæknivillu eru þessir dómarar orðnir helvíti viðkvæmir.“

Sjá einnig: Umfjöllun, viðtöl og myndir: Valur - Snæfell 70-77 | Naumur sigur meistaranna

Óhætt er að segja að Ari hafi verið ósáttur með dómgæsluna í leiknum í kvöld.

„Ég set út á dóma í upphafi leiks og fæ strax aðvörun um að haga mér. Svo sé ég Leif taka utan um Inga á leiðinni inn í klefa í hálfleik þegar hann er að kvarta. Ég vill bara fá sömu meðferð og aðrir, ég veit alveg hvað þeir eru að tala um í spjallinu sínu á Facebook. Ég fæ ekki það sama og aðrir þjálfarar,“ sagði Ari og hélt áfram:

„Þeir þorðu ekki að taka sénsinn á því að dæma Aaryn út hjá þeim, hún átti að fá fimmtu villuna mun fyrr en þeir höfðu ekki kjark til þess. Dómarinn sagði að honum hefði ekki fundist þetta rétti tímapunkturinn þegar ég ræddi við hann eftir leik. Hann vissi alveg um hvað ég var að tala um og ég er hræddur um að hann pissi undir í nótt.“

Aaryn átti stórleik undir restina og það kostaði Valskonur eflaust stigin.

„Hún var frábær, örugglega með hátt í tuttugu stig þarna undir lokin. Ef henni hefði verið vísað af velli með fimmtu villuna eins og réttmætt var þá veit ég alveg hvernig þessi leikur hefði farið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira