Körfubolti

Ingi Þór: „Menn eiga að halda svona upplýsingum fyrir sig“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Ég hafði bara ekki hugmynd um að þetta væri í gangi,“ segir Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari karla- og kvennaliðs Snæfells í Domino´s-deildinni í körfubolta um innherjaupplýsingarnar sem veðmálasíðan B-Ball Bets safnar til að auka sigurlíkur sínar og áskrifenda sinna þegar veðjað er á leiki deildarinnar.

Vísir fjallaði í morgun um síðuna en að henni standa tveir menn sem hringja í leikmenn liðanna í Domino´s-deildinni til að fá upplýsingar um leikmannahópana og fleira sem getur hjálpað þeim að græða peninga.

Sjá einnig:Formaður KKÍ um innherjaupplýsingarnar: „Getur haft alvarlegar afleiðingar“

„Það eru náttúrlega veðmálasíður út um allan heim en ég vissi ekki að það eru menn sem hringja til að fá upplýsingar og svo selja þær. Það getur alveg komið í bakið á mönnum að gera svona,“ segir Ingi Þór.

„Menn gera auðvitað allt til að fá upplýsingar þegar peningar eru í húfi. Veðmálaáhugi er fylgifiskur allra íþrótta.“

Eins og gefur að skilja hefur Ingi Þór, sem þjálfari, lítinn húmor fyrir því að heyra að leikmenn, hvort sem það eru hans strákar eða leikmenn annara liða, séu að láta af hendi mikilvægar upplýsingar.

„Menn eiga að halda svona upplýsingum fyrir sig. Körfuboltaleikur, eins og aðrar íþróttagreinar, er bara skák og því minna sem mótherjinn veit því betra. Það er alveg sama þó þeir láti upplýsingarnar ekki leka í hitt liðið. Þetta eru viðkvæmar upplýsingar og það að gefa upp eins lítið og hægt er,“ segir Ingi Þór sem sjálfur er ekkert að veðja.

„Ég veit hvað Lengjan er og svo sé ég stundum Bet-eitthvað. Ég spila bara Lottó. Ég var með þrjá rétta síðast og fékk 777 krónur. Það dugar fyrir hálfum miða í viðbót,“ segir Ingi Þór Steinþórsson léttur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×