Körfubolti

Brynjar Þór: Ég var ekki að fara að berja hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur hjá KR með 26 stig.
Brynjar Þór Björnsson var stigahæstur hjá KR með 26 stig. vísir/anton brink

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, bauð upp á skotsýningu framan af 82-80 sigurleik KR gegn Keflavík í Domino´s-deild karla kvöld en hann skoraði úr sjö af fyrstu níu þriggja stiga skotunum sínum.

„Mér leið ágætlega fyrir leikinn,“ sagði hann við Vísi í leikslok. „Ég var búinn að vera ógeðslega stífur í vikunni. Ég tók eina hnébeygju á mánudaginn og leið eins og gömlum manni í þrjá daga en ég var ágætur í dag.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi ótrúlega skytta dettur í svona ham.

„Þegar maður fær einn opinn þrist þá líður menn ágætlega en annars líður mér alltaf vel þegar ég skýt boltanum. Mér leið ekkert alltof vel fyrir leikinn en stundum hittir maður betur ef maður er ekki með of miklar væntingar,“ sagði Brynjar Þór sem er ósáttur við að hleypa Keflavík inn í leikinn.

„Fjórði leikhlutinn hefur verið akkilesarhæll okkar í vetur. Við verðum alltaf svolítið staðir og horfum of mikið á Jón og Pavel og mig í staðinn fyrir að hlaupa kerfin okkar af krafti. Við þurfum að ræða þetta og bæta. Þetta er búið að gerast það oft eftir áramót að við verðum að nýta okkur þessa bjöllu sem er að hringja.“

Brynjar fékk tæknivillu undir lokin fyrir að öskra á Guðmund Jónsson sem hrinti honum í jörðina. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Brynjar lendir í svona atviki á móti Keflavík.

„Við vorum dottnir í smá glímu þarna og ég spurði bara hvaða rugl þetta væri. Það má aðeins leyfa mönnum að pústa meira en er gert. Ég var augljóslega ekkert að fara að berja hann. Ég var bara aðeins að láta hann heyra það. Það er hluti af leiknum,“ sagði Brynjar Þór Björnsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira