Körfubolti

Golden State hóf lífið án Durants með tapi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Golden State Warriors hefur ekki tapað mörgum leikjum í NBA-deildinni í körfubolta undanfarin misseri en í nótt tapaði það öðrum leiknum í röð þegar liðið lá í valnum gegn Chicago Bulls á útivelli, 94-87.

Þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Kevin Durant meiddist en stórstjarnan sem kom frá Oklahoma City fyrir tímabilið meiddist illa í síðasta leik og verður frá næstu mánuðina.

Golden State þurfti að gefa mikið upp á bátinn til að fá Durant til liðsins og hefur nú bæði litla hæð í liðinu og langt frá því jafnsterkan varamannabekk og áður.

Steph Curry og Klay Thompson voru ískaldir fyrir utan þriggja stiga línuna en saman hittu þeir aðeins úr þremur af 22 þriggja stiga skotum sínum. Curry skoraði 23 stig og Thompson aðeins þrettán.

Jimmy Butler var stigahæstur hjá Chicago með 22 stig en Dwayne Wade skoraði tólf stig og tók fimm fráköst.

Russell Westbrook skoraði 45 stig fyrir Oklahoma City þegar fjögurra leikja sigurhrinu þess lauk í nótt. Thunder tapaði á útivelli fyrir Portland Trail Blazers, 114-109.

Damien Lillard skoraði 33 stig fyrir Portland sem er í níunda sæti vestursins, þremur leikjum á eftir Denver Nuggets og þarf að fara á skrið ef liðið ætlar sér í úrslitakeppnina.

Úrslit næturinnar:
Chicago Bulls - Golden State Warriors 94-87
Phoenix Suns - Charlotte Hornets 120-103
Portland Trail Blazers - OKC Thunder 114-109

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira