Erlent

Borgarstjórinn í Calais bannar dreifingu matvæla til flóttamanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Flóttamenn í Calais.
Flóttamenn í Calais. vísir/epa
Natacha Bouchart, borgarstjórinn í frönsku borginni Calais, hefur bannað dreifingu matvæla til flóttamanna. Þetta gerir hún til að koma í veg fyrir að nýjar flóttamannabúðir rísi í borginni en þrír mánuðir eru síðan stórar flóttamannabúðir voru jafnaðar við jörðu í Calais.

Að því er fram kemur í umfjöllun á vef Guardian streyma nú hundruð flóttamanna aftur til borgarinnar en hún stendur við Ermarsund og freistar fólk þess gjarnan að komast í Ermarsundsgöngin og yfir til Bretlands.

Bouchart sagði í gær að hún myndi innleiða stefnu til að koma í veg fyrir að mat verði dreift til flóttafólks en borgaryfirvöld hafa nú þegar bannað hjálparsamtökum að setja upp og opna sturtur fyrir ungmenni á flótta sem komið hafa til borgarinnar.

Hjálparsamtök sem hafa dreift matvælum til flóttamanna segjast hafa þurft að gera það í leyni þar sem lögreglan fylgist vel með en þau ætla ekki að hlýta banninu og hafa leitað til lögfræðinga.

Samkvæmt stefnu borgaryfirvalda er dreifing matvæla til flóttafólks ógn við frið og öryggi á því svæði þar sem dreifingin hefur farið fram, það er þar sem upprunalegu flóttamannabúðirnar voru. Allar samkomur voru því bannaðar á svæðinu.

Ítarlega umfjöllun Guardian um ástandið í Calais má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×