Körfubolti

Ákvæði mögulega sett í samninga til að sporna við upplýsingaleka

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Leikmannasamningar Stjörnunnar í Domino´s-deild karla í körfubolta munu í framtíðinni líklega taka mið af leka á innherjaupplýsingum fyrir veðmálastarfsemi.

Vísir fjallaði í gær um veðmálasíðuna B-Ball Bets en þar selja tveir menn innherjaupplýsingar um liðin í Domino´s-deildinni til áskrifenda sinna gegn greiðslu.

Annar mannanna viðurkenndi í hlaðvarpsþætti karfan.is að þeir hringja í leikmenn deildarinnar til að fá stöðu á þeirra liðum fyrir næstu leiki og að þeir fá upplýsingarnar auðveldlega. Þær eru svo nýttar til að græða peninga á veðmálum. Ekki er bara hringt í leikmenn heldur líka þjálfara.

Sjá einnig: Formaður KKÍ um innherjaupplýsingarnar: „Getur haft alvarlegar afleiðingar“

„Það hefur ekki gerst í ár en það var hringt fyrir hvern einasta leik í fyrra. Við vorum einmitt að tala um þetta inn í klefa. Þetta er bara eins og að drekka vatn. Ég veit ekki hvort þetta má eða má ekki,“ segir Jóhann Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur nákvæmlega engan húmor fyrir þessari iðju. Hann sagði líka þeim sem hringdu í hann fyrir hálfu öðru ári síðan að gera slíkt aldrei aftur.

„Ég hef aldrei gefið upplýsingar um mitt lið en það hefur verið haft samband við mig,“ segir Hrafn en hefur verið haft samband við hann? „Ekki eftir að það gerðist í fyrsta skiptið fyrir um einu og hálfu ári síðan. Þeim hefur ekki dottið í hug að gera það aftur.“

Hrafn segist ekki hafa orðið var við að sínir leikmenn hafi fengið slík símtöl eða látið í té upplýsingar um liðið. Þeim er líka hollast að sleppa því.

„Nei, en það verður rætt um það strax á morgun. Ég vildi klára þennan leik fyrst. Það er algjörlega kýrskýrt hjá mér og minni stjórn að þetta verður ekki liðið. Þetta er bara eitt skref í áttina að einhverju alvarlegra og það er í rauninni þannig að héðan í frá myndi ég ætla að hver einstasti samningur sem verður undirritaður hjá Stjörnunni í Garðabæ innihaldi eitthvað sem varar fólk við að gera svona þó það sé erfitt að fylgjast með þessu. Þetta er eitthvað sem á ekki að finna sér stað í huganum á leikmanni sem er að taka þátt í verkefni með félögum sínum,“ sagði Hrafn Kristjánsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira