Sport

Málin útkljáð í þyngdarflokki Gunnars í nótt

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Báðir fögnuðu eftir að fyrri bardaga þeirra lauk.
Báðir fögnuðu eftir að fyrri bardaga þeirra lauk. Vísir/Getty

UFC 209 fer fram í nótt í Las Vegas en í aðalbardaga kvöldsins mætast þeir Tyron Woodley og Stephen ‘Wonderboy’ Thompson um veltivigtartitilinn.

Bardaginn er endurat en kapparnir börðust fyrst um veltivigtartitilinn í New York í nóvember. Þá endaði bardaginn með jafntefli og ætla þeir nú að endurtaka leikinn. Veltivigtin er einn sterkasti þyngdarflokkurinn í UFC en þar berst Gunnar Nelson.

Woodley er ríkjandi meistari og var nálægt því að klára Thompson í 4. lotu er þeir mættust í Madison Square Garden. Woodley tókst að kýla Thompson þrisvar sinnum niður í lotunni og reyndi einnig að klára hann með uppgjafartaki. Thompson sýndi hins vegar ótrúlega hörku með því að standa þetta af sér og náði að koma til baka og vinna fimmtu og síðustu lotuna.

Nú er stóra spurningin; hvor lærði meira af síðasta bardaga og hvor kemur betur undirbúinn í þetta sinn? Það má reikna með að bardaginn verði hnífjafn líkt og síðasti bardagi en fyrri bardagann má sjá hér.

Hinn 33 ára Wonderboy hefur sjálfur sagt að hann þurfi að sparka meira en hann gerði í síðasta bardaga. Spörkin hans eru hans besta vopn enda eru þau hárnákvæm og hröð. Það getur þó skapað hættu þar sem glímumaðurinn Woodley náði fellu með því að grípa spark Thompson í 1. lotu. Thompson var pikkfastur undir Woodley í heila lotu og verður athyglisvert að sjá hvers konar leikáætlun þeir koma með til leiks í nótt.

UFC varð fyrir miklum missi í gær þegar bardagi Khabib Nurmagomedov og Tony Ferguson féll niður. Eftir erfiðan niðurskurð var Khabib sendur á spítala og var bardaginn felldur niður samkvæmt læknisráði.

Það breytir því þó ekki að UFC 209 verður hörku bardagakvöld enda veltivigtartitillinn í húfi. UFC 209 verður sýnt á Stöð 2 Sport í nótt en bein útsending hefst kl 3.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira