Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - KR 67-87 | KR-ingar orðnir deildarmeistarar

Arnór Óskarsson í Stykkishólmi skrifar
KR-ingar eru búnir að vinna deildina.
KR-ingar eru búnir að vinna deildina. Vísir/Vilhelm

KR-ingar tryggðu sér deildarmeistaratitil Domino’s-deildarinnar eftir öruggan 67-87 sigur á Snæfelli í Stykkishólmi í kvöld.

Leikurinn í kvöld var síðasti leikur Snæfells í úrvalsdeild á heimavelli en liðið kemur til með að spila í 1. Deild á komandi tímabili. Stuðningsfólk Snæfells virtist mjög meðvitað um þessa staðreynd og fagnaði vel í hvert skipti er skorað var. KR-ingar eru aftur á móti orðnir deildarmeistarar og stefnir eflaust í mikil fagnaðarlæti í Vesturbænum í tilefni þess.

Í kvöld voru það þó heimamenn sem byrjuðu leikin betur. Sveinn Arnar Davíðsson skoraði fyrstu stigin en um var að ræða þrist langt fyrir utan þriggja stiga línuna. Það virtist hafa gífurlega jákvæð áhrif á bæði samherjana og áhorfendur en Árni Elmar Hrafnson og Andrée Fares Michaelsson skoruðu í kjölfar tvo þrista og var botnlið deildarinnar þar með komið með átta stiga forystu á ríkjandi Bikarmeistara.

Snæfellingar virtust ætla sér stóra hluti en KR-ingar tóku þessu öllu saman með stóískri ró og héldu áfram að stilla upp sinn sóknarleik og fóru jafnframt í auknum mæli að stjórna hraða leiksins.

Eftir um það bil sex mínútna leik skipti KR bersýnilega um gír og snéri leiknum á örskotsstund sér í hag. Allt þetta virtist mjög áreynslulaust hjá KR-ingum en heimamenn þurftu aftur á móti að hafa mikið fyrir öllu í bæði sóknar- og varnarleik.

Í seinni hálfleik var ljóst að KR-ingar kæmu til með að landa öruggan sigur og var ekkert sem benti til þess að Snæfell kæmi til með að breyta því.
 


Af hverju vann KR?
KR-ingar eru óneitanlega með feikilega breiðan og fjölhæfan leikmannahóp sem á deildarmeistaratitilinn fullkomlega skilið. Leikurinn í kvöld var nánast allan tíman undir öruggri stjórn og höfðu stakar tilraunir heimamanna til að trufla gestina lítil sem engin áhrif á leikskipulag KR-inga.

Þrátt fyrir að byrja rólega var nánast aldrei neinn vafi á því hverjir kæmu til með að vinna leikin og hirða tvö stig. Það var ekki síst sjálfstraustið sem skein úr hverju einasta andliti KR-inga sem virkaði mjög sannfærandi.


Bestu menn vallarins

Philip Alawoya var stigahæstur KR-inga með 26 stig. Hann tók einnig 6 fráköst og reyndist Snæfellingum á heildina litið mjög erfiður.

Pavel Ermolinskij var hársbreidd frá því að vera með þrennu en hann skoraði 15 stig, var frákastahæstur í sínu liði með 11 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

Alls voru 5 leikmenn hjá KR-ingum með 10 eða fleiri stig í þessum leik og var framlag KR-inga því mun dreifðara en framlag Snæfellinga. Þess ber að geta að KR-ingar spiluðu án tveggja lykilmanna í kvöld.

Í liði Snæfellinga var það fyrst og fremst Christian David Covile sem skilaði góðu dagsverkefni. Hann skoraði 26 stig, tók 16 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Skemmtilegar troðslur kveiktu í samherjunum og er óhætt að fullyrða að hann hafi verið Snæfellingum mikilvægur í kvöld.

Christian David Covile, Árni Elmar Hrafnson og Andrée Fares Michaelsson skoruðu samtals 49 stig fyrir Snæfell og hefðu þurft meira framlag frá öðrum til að halda í við deildarmeistarana.

Tölfræðin sem vakti athygli
Í stuttu máli þá voru KR-ingar betri í nánast öllum tölfræðiþáttum leiksins. Jafnt var þó með liðunum í fráköstum.

Hvað gekk illa?
KR-ingar virtust á köflum eiga erfitt með að hafa gaman af þessum leik. Leikgleði Snæfellinga var töluvert meiri þrátt fyrir greinilega yfirburði mótherjans og fögnuðu heimamenn nánast hverju einasta stigi er var skorað.

Snæfellingar áttu hinsvegar í töluverðum erfiðleik með að sætta sig við staka dóma en heimamenn hefðu mátt nýta þá orku sem fór í að mótmæla dómurunum í að bæta leik sinn.

Snæfell-KR 67-87 (13-19, 24-28, 13-16, 17-24)

Snæfell: Christian David Covile 26/16 fráköst, Andrée Fares Michelsson 13, Árni Elmar Hrafnsson 10/6 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 6, Viktor Marínó Alexandersson 6/5 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 4, Jón Páll Gunnarsson 2.

KR: Philip Alawoya 26/6 fráköst, Pavel Ermolinskij 15/11 fráköst/8 stoðsendingar, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 14/6 fráköst, Darri Hilmarsson 13/5 fráköst, Vilhjálmur Kári Jensson 10, Sigvaldi Eggertsson 4, Arnór Hermannsson 3/5 fráköst/5 stoðsendingar, Brynjar Þór Björnsson 2.

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR-inga, Vísir/Eyþór

Finnur: Leikurinn náði aldrei neinu flugi.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR-inga, var að vonum sáttur með að ná í tvö stig í kvöld. Hann hrósaði Snæfell fyrir baráttuna sem þeir hafa sýnt í vetur.

„Það er alltaf gaman að koma í Hólminn og það er góður körfubolti hérna. Snæfellingar eru búnir að leysa þetta erfiða verkefni sem þetta tímabil er búið að vera fyrir þá rosalega vel og hefur verið mikill uppgangur í síðustu leikjum þeirra. Þessir strákar eru búnir að leggja sig alla fram og gera sitt besta þó svo að liðið sé ekki sterkt og það vanti reynslu. Þeir geta borið höfuðið hátt því það hefði verið auðvelt að leggjast niður og vorkenna sjálfum sér. Þeir eru búnir að gera þetta af krafti í vetur og það er þeim til hrós og það mun vonandi skila þeim árangri í framtíðinni,” sagði Finnur eftir leikinn.

KR-ingar spiluðu án tveggja lykilmanna í kvöld en Sigurður Þorvaldsson var frá vegna meiðsla og Jón Arnór Stefánsson var frá vegna veikinda. Það virtist hafa einhver áhrif á leikskipulag liðsins en gífurleg breidd dugði þó til að landa sannfærandi sigri í kvöld.
 
„Leikurinn náði aldrei neinu flugi. Við erum með menn veika og meidda en komumst þægilega frá þessu,” sagði Finnur.
Aðspurður hvort veikindi og meiðsl kæmu til með að hafa áhrif á næsta leik á móti Stjörnunni á fimmtudaginn sagði Finnur: „Ég reikna með að við verðum fullskipaðir á fimmtudaginn, sagði Finnur.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells. Vísir/Eyþór

Ingi: Súrt að tapa öllum heimaleikjunum
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sagði það vera súrt að tapa öllum heimaleikjunum í vetur. Þrátt fyrir það telur hann að liðið sitt geti gengið þokkalega stoltir frá borði en um gríðarlega erfitt verkefni hafi verið að ræða.

Varðandi leikinn í kvöld hrósaði Ingi Þór skilvirkri spilamennsku KR-inga sem stjórnuðu leiknum þrátt fyrir að vera án tveggja lykilmanna.

„KR-liðið er mjög gott og það vantaði toppa í liðið hjá þeim. Þeir eru bæði vel þjálfaðir og með hátt IQ þessir strákar. Þeir spiluðu vörnina mjög vel og héldu okkur mikið fyrir utan. Við náðum ekki að komast nægilega nálagt körfunni,” sagði Ingi í lok leiksins.

„Við ætluðum ekki að sækja fyrir utan og það vantaði svolítið jafnvægi í þetta hjá okkur. Leikurinn okkar nær körfunni var ekki sterkur í dag. En við ætlum okkur að gera betur,“ sagði Ingi.

Síðast en ekki síst þakkaði Ingi Þór áhorfendum fyrir stuðninginn í vetur og bætti við:

„Ég vonast að [stuðningurinn] verði þrefalt, ef ekki fjórfalt öflugri þegar liðið mun spila í fyrstu deild og að allir flykkja sig á bakvið þessa ungu stráka sem eiga eftir að vera fulltrúar Snæfells í framtíðinni. Það er fullt af strákum hérna sem geta spilað og eiga mikið inni. Með vinnusemi og elju geta þeir orðið framtíðar leikmenn fyrir Snæfell eða einhver önnur lið,“ sagði Ingi Þór að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira