Íslenski boltinn

KA vann Íslandsmeistarana | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

KA gerði sér lítið fyrir og vann 1-2 sigur á Íslandsmeisturum FH í riðli 1 í Lengjubikar karla í dag.

Með sigrinum jafnaði KA FH að stigum en þau eru bæði með sex stig í tveimur efstu sætum riðilsins.

Ásgeir Sigurgeirsson kom KA-mönnum yfir á 16. mínútu í Akraneshöllinni í dag.

Staðan var 0-1 í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks jafnaði Steve Lennon metin. Skotinn kom inn á sem varamaður í hálfleik og var ekki lengi að láta að sér kveða.

Það var svo annar varamaður sem réði úrslitum í leiknum í dag. Á 81. mínútu kom Ólafur Aron Pétursson inn á fyrir Archange Nkrumu og mínútu síðar skoraði hann sigurmark KA.

Í uppbótartíma fékk Grétar Snær Gunnarsson, leikmaður FH, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 1-2, KA í vil.

Í riðli 2 skildu Fylkir og ÍBV jöfn, 1-1. Daði Ólafsson kom Fylkismönnum yfir með marki úr víti en Jón Ingason jafnaði metin og tryggði Eyjamönnum stig.

ÍBV er í 3. sæti riðilsins með fjögur stig en Fylkir í því fjórða með eitt stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira