Íslenski boltinn

KA vann Íslandsmeistarana | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KA gerði sér lítið fyrir og vann 1-2 sigur á Íslandsmeisturum FH í riðli 1 í Lengjubikar karla í dag.

Með sigrinum jafnaði KA FH að stigum en þau eru bæði með sex stig í tveimur efstu sætum riðilsins.

Ásgeir Sigurgeirsson kom KA-mönnum yfir á 16. mínútu í Akraneshöllinni í dag.

Staðan var 0-1 í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks jafnaði Steve Lennon metin. Skotinn kom inn á sem varamaður í hálfleik og var ekki lengi að láta að sér kveða.

Það var svo annar varamaður sem réði úrslitum í leiknum í dag. Á 81. mínútu kom Ólafur Aron Pétursson inn á fyrir Archange Nkrumu og mínútu síðar skoraði hann sigurmark KA.

Í uppbótartíma fékk Grétar Snær Gunnarsson, leikmaður FH, sitt annað gula spjald og þar með rautt. Það breytti þó engu um úrslitin. Lokatölur 1-2, KA í vil.

Í riðli 2 skildu Fylkir og ÍBV jöfn, 1-1. Daði Ólafsson kom Fylkismönnum yfir með marki úr víti en Jón Ingason jafnaði metin og tryggði Eyjamönnum stig.

ÍBV er í 3. sæti riðilsins með fjögur stig en Fylkir í því fjórða með eitt stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×