Körfubolti

Ívar: Bara hlegið og öskrað í Körfuboltakvöldi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, reyndi að halda uppi vörnum fyrir sjálfan sig í gær eftir skíðaferðina frægu sem hann fór í er Haukar spiluðu mikilvægasta leik tímabilsins fyrir síðustu helgi.

Ívar kom svo heim á laugardag og stýrði Haukaliðinu til sigurs gegn Stjörnunni í gær. Sá sigur dugði til þess að tryggja veru Hauka í efstu deild á næsta tímabili þar sem Skallagrímur tapaði á sama tíma og féll.

Ívar viðurkenndi að það væri fréttnæmt að hann hefði farið í skíðaferðina en kvartaði samt yfir umfjölluninni sem var bæði í Körfuboltakvöldi sem og á Vísi.

„Það er fréttnæmt en það er kannski ekki eðlilegt að eyða tveimur vikum í það,“ sagði Ívar en ofanritaður benti Ívari á að það hefði nú enginn eytt neinum tveimur vikum í að gagnrýna ferðina. „Það var samt þannig.“

Ívar skrifaði á Facebook, eftir að hann hélt í ferðina frægu, að honum hafi fundist það ótrúlegt að umræða um hann hefði „næstum fyllt heilan þátt að körfuboltakvöldi í stað þess að fjalla um leikina sjálfa“. Blaðamaður benti Ívari góðfúslega á að í þessu tilviki hefði verið rætt um hans mál í fjórar mínútur í 106 mínútna þætti. Er það heill þáttur?

„Mikið til því hitt er bara hlegið og öskrað,“ sagði Ívar og skautaði svo yfir í aðra sálma.

Hann sagði Haukaliðið hafa rætt saman áður en hann fór út og hann hefði verið langt kominn með að hætta við að fara í ferðina. Hann segir að með því að fara í ferðina hefði pressan farið á hann og af leikmönnunum. Það hafi verið fínt þó svo hann virkaði nú ekki beint yfir sig hamingjusamur með það.

„Nei, nei. Ég vissi alveg að það yrði rætt um þetta. Það er eðlilegt en menn þurfa að gera það kannski á vitrænan hátt,“ segir Ívar en getur hann fært rök fyrir því að það hafi verið gert á óvitrænan hátt?

„Það var bara margt. Það vantaði rökstuðning við þetta,“ sagði Ívar og rökstuddi mál sitt ekki frekar.

Þjálfarinn segir að eftir á að hyggja hafi sú ákvörðun hans að fara á skíði á míðju tímabili verið það besta sem hafi getað komið fyrir liðið.

„Það held ég. Við erum búnir að vera mjög góðir eftir að ég fór.“

Sjá má viðtalið við Ívar frá því í gær hér að ofan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira