Bakþankar
Jón Sigurður Eyjólfsson

Að trumpast í áfengismálum

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar

Ég veit að það er að bera í blindfullan lækinn en ég ætla aðeins að tala um áfengislögin. En fyrst langar mig að segja litla sögu:

Einu sinni vann ég á sambýli þar sem afar góð kona bjó en hún átti erfitt með mál. Eitt sinn tók hún sig þó til, læddist inn á starfsmannaskrifstofu og pantaði sumarhús í Svíþjóð. Í fyrstu urðum við starfsmenn skelkaðir, þegar upp komst, og fórum að hugsa eins og hugmyndasnauðir valdsmenn gera oft: Við verðum að læsa skrifstofunni, eða loka símann inni í skáp og þar fram eftir götunum. Það var ekki fyrr en seinna að við höfðum vit á því að gleðjast yfir því að konan hefði verið fær um að koma svona fram með festu og frumkvæði og án þess að láta fötlun sína trufla sig.

Undanfarin ár hef ég unnið í skólum. Þar vill stundum brenna við að yfirvöldum detti ekkert frekar í hug en refsingar og þving­anir þegar óþekkt gerir vart við sig. Reynslan kennir mér þó að þegar maður er orðinn svona forpokaður, og farinn að hugsa í múralausnum eins og Bandaríkjaforseti, þá króar maður sjálfan sig út í horn þaðan sem engar skapandi lausnir sjást.

Þar finnst mér við einmitt vera í áfengismálum, og ef ég skil málið rétt, rífumst við nú um það hvort eigi að okra á okkur úti í matvörubúð eða úti í vínbúð. Líklegast erum við orðin svo trumpuð af leiðinlegu fullu fólki (sem er afsprengi múramenningar), þess að láta okra á okkur og plata af okkur auðlindir, að okkur dettur ekkert betra í hug. Á meðan fær enginn léttvín fyrir skynsamlegt verð á stað þar sem enginn alki á erindi. Trumpað!
 
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Bakþankar

Pest

Þórarinn Þórarinsson skrifar

Sjá meira