Körfubolti

Górilla skutlaði sér inn á völlinn í miðjum NBA-leik | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Herra górilla.
Herra górilla. Vísir/Getty

Washington Wizards vann 131-127 sigur á Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og það var vissulega um nóg að fjalla frá þessum leik enda margir að spila vel og tveir leikmenn sendir í sturtu. Það var þó einn leynigestur sem stal senunni á samfélagsmiðlum eftir leikinn.

Górillan er lukkudýr Phoenix Suns liðsins og alltaf til staðar á heimaleikjum liðsins. Górillan er þó aldrei inn á vellinum nema í leikhléum og á milli leikhluta. Þar til í nótt.

Í einni sókn heimaliðsins í fjórða leikhluta þegar munurinn var aðeins fimm stig þá var eins og umrædd górilla hefði hreinlega „fríkað“ út þegar hún skutlaði sér inn á völlinn.

Boltinn var meira að segja á þeim helmingi vallarins, Phoenix-liðið með boltann og fullt af leikmönnum í kringum hana . Górillan var aftur á móti fljót að koma sér til baka í sína stöðu fyrir aftan völlinn.

Þegar menn fóru að skoða upptökuna betur kom þó ýmislegt í ljós. Það má því búast við því að lukkudýrið verið kallað inn á teppið í dag en ekki til að skamma það fyrir skutlið heldur til að hrósa starfsmanninum fyrir skjót viðbrögð.

Górillan var nefnilega ekki að skutla sér inn á völlinn sér til gamans heldur til að ná í aðskotarhlut sem var á hættulegum stað í teignum og hefði getað orsakað meiðsli leikmanna ef górillan hefði ekki komið auga á aðskotahlutinn.

Hér fyrir neðan má sjá skutluna hjá Herra Górillu.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira