Körfubolti

Kaleo sett á fóninn í Dallas þegar Dirk skoraði 30.000 stigið | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dirk Nowitzki er einn besti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar.
Dirk Nowitzki er einn besti leikmaður í sögu NBA-deildarinnar. vísir/getty

Þýski körfuboltamaðurinn Dirk Nowitzki varð í nótt sjötti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem skroar yfir 30.000 stig. Hann er í hóp með Kareem Abdul-Jabbar, Wilt Chamberlain, Karl Malone, Michael Jordan og Kobe Bryant.

Nowitzki náði þessum merka áfanga í sigurleik á móti Los Angeles Lakers þar sem hann skoraði 25 stig og tók tólf fráköst.

Sá þýski er án nokkurs vafa besti leikmaður í sögu Dallas Mavericks en hann var kjörinn besti leikmaður deildarinnar árið 2007 og var besti leikmaður lokaúrslitanna árið 2011 þegar Dirk leiddi Dallas til sigurs í NBA-deildinni á móti LeBron James og Miami Heat.

Um leið og Dirk setti niður glæsilegt skot úr teignum sem kom honum yfir 30.000 stigin var spilað tæplega tveggja mínútna langt myndband í American Airlines-höll Dallas-liðsins þar sem stiklað var á stóru á ferli Þjóðverjans.

Ísland kemur aðeins við sögu í myndbandinu því lagið sem er spilað undir því er Way Down We Go með Mosfellingunum í Kaleo sem eru orðnir ansi vinsælir vestanhafs.

Hér að neðan má sjá myndbandið sem spilað var til heiðurs Dirks Nowitzki undir ljúfum tónum Kaleo.

NBA

Tengdar fréttir

Stór áfangi á ferli Nowitzki | Myndbönd

Þjóðverjinn Dirk Nowitzki varð í nótt aðeins sjötti leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar sem nær því að skora yfir 30 þúsund stig á ferlinum.
Fleiri fréttir

Sjá meira