Formúla 1

Valtteri Bottas fljótastur á öðrum æfingadegi

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Valtteri Bottas fór hraðast allra í dag.
Valtteri Bottas fór hraðast allra í dag. Vísir/Getty

Finnski ökumaður Mercedes liðsins, Valtteri Bottas var fljótastur á öðrum degi seinni æfingalotunnar fyrir komandi tímabil í Formúlu 1. Max Verstappen á Red Bull fór lengst, 102 hringi.

Fljótasti maður gærdagsins, Felipe Massa varð annar í dag á hraðari tíma en í gær á Williams bílnum. Massa ók 63 hringi en eftir hádegi settist Lance Stroll undir stýri í Williams bílnum og ók 59 stórvandræðalausa hringi.

Kimi Raikkonen varð þriðji fljótastur í dag en fór ekki nema 53 hringi. Ferrari bíllinn var að glíma við vökvakerfisvandræði í morgun og svo flaug Finninn útaf eftir hádegi og skaddaði framvænginn. Eftir það var ævintýrið úti í dag.

Ætli Fernando Alonso verði í bílnum í Ástralíu þann 26. mars? Vísir/getty

McLaren bíllinn fór skemmst allra bíla í dag. Hann fór 46 hringi undir stjórn Fernando Alonso. Vaxandi orðrómur er á kreiki um að Alonso verði hugsanlega ekki með McLaren liðinu í keppnum tímabilsins. Það á þó eftir að koma nánar í ljós þegar nær dregur.

Einungis tveir dagar eru eftir af æfingum þangað til liðin koma sér fyrir í Ástralíu þar sem fyrsta keppni tímabilsins fer fram eftir 18 daga.

Vísir mun fylgjast áfram með æfingum á morgun.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira