Erlent

Þjóðarsorg lýst yfir í Guatemala eftir að 21 unglingsstúlka lést í eldsvoða

Gunnar Reynir Valþórsson og Hulda Hólmkelsdóttir skrifa
Þjóðarsorg ríkir nú í Guatemala.
Þjóðarsorg ríkir nú í Guatemala. Vísir/EPA
Þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Guatemala eftir að eldsvoði á upptökuheimili fyrir börn og unglinga varð tuttugu og einni unglingsstúlku að bana.

Eldsvoðinn hefur varpað kastljósinu að heimilinu og því hvernig það var rekið af ríkinu, en lögregla segir að nokkrar stúlknanna hafi kveikt í dýnum sínum eftir að til uppþots kom á stofnuninni á þriðjudag.

Stúlkurnar höfðu verið lokaðar af í hluta byggingarinnar af lögreglu þegar eldurinn gaus upp. Þá hafa verið settar fram ásakanir þess efnis að stúlkurnar sem dvöldu þar hafi verið misnotaðar. Fjörutíu til viðbótar slösuðust og þar af nokkrir alvarlega. Allar stúlkurnar sem létust voru á aldrinum 14 til 17 ára.

Jimmy Morales, forseti Guatemala, lýsti því yfir að þjóðarsorg ríkti í landinu í kjölfar brunans. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forsetans er verið að rannsaka eldsupptökin.

Uppþotin á þriðjudag eru talin hafa orðið vegna kynferðisofbeldis sem stúlkurnar máttu þola og vegna slæmra aðstæðna og matarskorts. 



„Þetta var tifandi tímasprengja. Það mátti búast við þessu,“ sagði Angel Cardenas, fyrrverandi starfsmaður heimilisins, í samtali við AFP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×