Körfubolti

Keflavík og Njarðvík geta hjálpað hvoru öðru í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson.
Logi Gunnarsson og Hörður Axel Vilhjálmsson. Vísir/Samsett

Það er mikið undir í lokaumferð Domino´s deildar karla í kvöld en þá ræst hvaða lið tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og hvaða lið situr eftir með sárt ennið. Það vill enginn fara í sumarfrí 9. mars og það má búast við mikilli spennu í leikjum kvöldsins. 

Mest er sennilega undir í leikjum ÍR og Keflavíkur í Seljaskóla annarsvegar og í leik Þórs og Njarðvíkur í Þorlákshöfn hinsvegar. Leikirnir verða báðir sýndur beint á sportstöðvum 365.

Njarðvíkingar eru í erfiðustu stöðunni en þeir mega ekki tapa og svo gæti jafnvel farið að það dugi ekki.

Njarðvík og Keflavík eru sannkallaðir erkifjendur í körfuboltanum en þau geta hjálpa hvoru öðru í lokumferðinni í kvöld.  Það er ekki oft sem Keflvíkingar og Njarðvíkingar vilja að bæði þeir og nágrannar þeirra hinum megin við Stapann vinni leiki sína.

Ef Njarðvík vinnur Þórsliðið í Þorlákshöfn þá eru þeir öruggir með sæti í úrslitakeppninni ef Keflavík vinnur ÍR á sama tíma.

Sjá einnig: Liðin í 5. til 9. sæti geta öll endað með 22 stig

Keflvíkingar þurfa líka að vinna ÍR-ingana ef þeir ætla að hækka sig í töflunni og þeir myndu þá líka njóta góðs af sigri Njarðvíkur á Þór. Keflavík kæmist þá upp fyrir Þór og upp í fimmta sætið.

Keflvíkingar gætu reyndar komist alls leið upp í fjórða sætið með sigri en Grindvíkingar mega þá ekki vinna Skallagrím á heimavelli sínum.

Njarðvíkingar gætu líka fengið hjálp frá Snæfelli í kvöld en ekkert gott gerist samt fyrir Njarðvíkinga í kvöld nema ef þeir ná að landa sigri í Þorlákshöfn.
Fleiri fréttir

Sjá meira