Innlent

Biðlistar styst um þrjá mánuði

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Fjölgað hefur aðgerðum við Landspítala í sérstöku átaki með auka fjármagni frá velferðarráðuneyti
Fjölgað hefur aðgerðum við Landspítala í sérstöku átaki með auka fjármagni frá velferðarráðuneyti vísir/vilhelm
Fyrir tæpu ári gerði velferðarráðuneytið samning við heilbrigðisstofnanir á landinu um að átak yrði gert til að fækka sjúklingum á biðlista eftir liðskiptaaðgerð, augasteinaaðgerð og hjartaþræðingu.

Átakið stendur til 2018 og er markmiðið að biðtíminn verði styttri en þrír mánuðir við lok þess.

Ákveðið markmið var sett fyrir árið 2016 og ef litið er til stærstu heilbrigðisstofnunarinnar, Landspítalans, náðist markmiðið ekki þótt litlu hafi munað.

Fyrir fasta fjárveitingu átti að gera 700 liðaskiptaaðgerðir. Markmiðið var að fjölga þeim um 340 og gera 1.040 aðgerðir en alls voru þúsund aðgerðir gerðar, fjörutíu undir markmiði, en 41% fleiri en vanalega.

Biðtími styttist um þrjá mánuði, úr níu mánuðum í sex.

Fastur fjöldi augasteinaaðgerða var átta hundruð en átti að fjölga þeim um 1.790 og gera 2590 aðgerðir á árinu.

Alls voru 2.379 aðgerðir gerðar, 211 undir markmiði en þa er fjölgun um 197 prósent.

Bið styttist um þrjá og hálfan mánuð.

Fyrirhugað var að gera 1.725 hjartaþræðingar. Markmiðið var að fjölga þeim um fimmtíu en þeim fjölgaði eingöngu um tólf, eða eitt prósent.

Bið styttist þó um þrjá til fjóra mánuði.

Alma D. Möller, læknir og framkvæmdastjóri aðgerðasviðs, segir að markmiðunum hafi nánast verið náð. Eingöngu hafi þurft tveggja vikna vinnu til að ná þeim - en átakið hófst ekki fyrr en í lok janúar á síðasta ári. Alma segir mikla ánægju með árangurinn.

„Markmiðið að fara undir þrjá mánuði á næsta ári en í augasteinaaðgerðum munum við ná því markmiði í ár," segir Alma og endir á að árangurinn sýni hvers spítalinn er megnugur þegar fjármagn er aukið til aðgerða. Einnig að verið sé að undirbúa sérstakt átak í kvenaðgerðum á þessu ári.

En þrátt fyrir ágætis árangur er þó í dag hálfs árs bið í mikilvægar aðgerðir. Forsvarsmenn Klíníkarinnar hafa bent á að samvinna við einkasjúkrahúsið gæti eytt biðlistum með öllu. Alma segir það hafa sýnt sig að ekki sé gott að dreifa stórum aðgerðum eins og liðaskiptaaðgerðum, enda verði sérþekkingin til með því að gera fleiri aðgerðir á sama stað.

„Landspítalinn er endastöð, þarf að takast á við þyngstu og erfiðustu aðgerðirnar og veita bráðaþjónustu. Þannig að ef það á að dreifa kröftum bæklunarlækna þá höfum við áhyggjur af því að það veiki sérgreinina innan spítalans."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×