Körfubolti

Maggi Gunn mögulega hættur: Vill ekki gefa neitt út strax

Anton Ingi Leifsson skrifar
Magnús hefur mögulega leikið sinn síðasta leik á ferlinum.
Magnús hefur mögulega leikið sinn síðasta leik á ferlinum. vísir/ernir

Stórskyttan Magnús Þór Gunnarson er mögulega hættur körfuboltaiðkun eftir farsælan feril, en hann segist ekki enn hafa gert upp hug sinn. Magnús lék á nýafstöðnu tímabili með Skallagrími sem féll úr deild þeirra bestu eftir eins árs veru.

„Þetta var rosalega erfitt. Við höfðum ekki hugmynd hvað við áttum að gera alla vikuna," sagði Magnús samtali við íþróttadeild 365 í leikslok.

„Við komum hérna og börðumst af smá krafti, en ég hefði viljað sjá aðeins meiri baráttu í okkar lið.”

„Það var bara við því að búast að þetta yrði kaflaskipt hjá okkur. Það var erfitt að undirbúa okkur undir þetta og mér fannst þeir vera hálf værukærir.

„Þeir hittu vel í fyrsta leikhluta, enda fengu þeir alltaf frí skot. Allt í allt held ég að þetta hafi bara verið hund lélegur leikur,” sem segir að æfingarvikan hafi ekki verið nein skemmtun.

Sjá einnig: Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Skallagrímur 101-89 | Grindjánar héldu fjórða sætinu

„Sú versta, en svona er þetta bara. Við þurftum bara að taka þessu.”

Einhverjar sögusagnir voru í kringum leikinn í Grindavík að þetta gæti orðið síðasti leikur ferilsins hjá Magnúsi, en hann vildi ekki staðfesta neitt.

„Já, það gæti vel verið. Ég veit það ekki. Já og nei,” sagði Magnús sem vildi ekki gefa neitt út: „Ég vil ekki gefa neitt út strax. Ef mig langar að vera í körfu í júní þá geri ég það kannski, en ég efast um það. Ég veit það ekki.”

Magnús hefur verið lengi í boltanum, en hann hefur spilað með Keflavík, Njarðvík, Grindavík og nú síðast Skallagrím. Hann hefur verið ein þekktasta þriggja stiga skytta landsins og verða miklar sjónarsviptir úr deildinni ákveði Magnús að leggja skóna á hilluna.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira