Körfubolti

Sveinbjörn: Þetta lið er ekki þjakað af meðalmennsku

Kristinn G. Friðriksson í Hertz-hellinni skrifar
Sveinbjörn skaut á strákana í Domino's Körfuboltakvöldi.
Sveinbjörn skaut á strákana í Domino's Körfuboltakvöldi. vísir/anton
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR, var kampakátur eftir sigurinn á Keflavík í kvöld.

„Tilfinningin er frábær! Ég hef ekki fengið þessa tilfinningu síðan 2011, þegar við komumst síðast í úrslitakeppnina og þú trúir því ekki þvílíku fargi er af mér létt við þetta. Það blasir við hvað skóp þennan sigur; hjartaðí leikmönnum og stuðningsmönnum,“ sagði Sveinbjörn á skýi níu.

Það var áberandi góð vörn á „vagg og veltu“ Keflvíkinga sem virðist hafa skapað sigurinn fyrir heimamenn, en Hörður Axel Vilhjálmsson átti erfiðan dag sökum þess og Amin Stevens ekki sinn besta.

„Það var leikaðferð sem við settum upp fyrir leikinn og við áttuðum okkur á veikleikum þeirra. Þetta er lið sem skorar um níutíu stig í leik en aðeins áttatíu og eitt núna [eftir venjulegan leiktíma].  Það tel ég bara ágætis vörn. Við erum með bestu vörnina í deildinni, kannski á eftir Stjörnunni,“ sagði Sveinbjörn.

Nú liggur ljóst fyrir að ÍR fá Stjörnuna og aðspurður um hvort eitthvað lið sé óskamótherji sagði Sveinbjörn:

„Gef bara dipló svar, það skiptir ekki máli. Ef við ætlum að fara alla leið, verðum við að sigra bestu liðin. Við getum alveg eins gert það í átta liða úrslitum, undanúrslitum eða úrslitum. En það er einn leikur og ein umferð í einu.“

Sveinbjörn hélt áfram og mátti til með að koma þessu að: „Ég má til með að koma því að, það hefur setið í mér í heilt ár, sem annað hvort þú [undirritaður] eða Jonni [Jón Halldór Eðvaldsson] sögðuð í þættinum í fyrra um að liðið væri þjakað af meðalmennsku. Þið skuluð endilega ræða það í Körfuboltakvöldi á morgun,“ sagði Sveinbjörn.

„Þetta lið er ekki þjakað af meðalmennsku, svo fjarri því og þú sérð það best að í þetta lið vantar fjóra menn, Stefán Karel, Hjalta Friðriks, Kidda Marínós og svo Theodór og það má ekkert lið við því að missa fjóra leikmenn. Við erum að standast þessi afföll og ég vil meina að það eru menn eins og Hákon, Sigurkarl og Sæþór, einna helst, sem eru að koma inní þetta sem hefðu hugsanlega ekki fengið tækifæri nema útaf þessu brotthvarfi. Munið það bara að þetta lið er allt annað en í meðalmennsku,“ sagði Sveinbjörn mjög kátur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×