Skoðun

Ellilífeyrisránið mikla

Eggert Briem skrifar
Á lokaspretti síðasta þings voru samþykktar nýjar reglur um grunnlífeyrisgreiðslur. Ekki virðist mikill tími hafa farið í umræður um málið enda um nokkuð flókið mál að ræða. Allavega sagði þingmaður sem ég ræddi við að hann hefði ekki haft tíma til að skoða málið gaumgæfilega.

Hins vegar lýstu margir þingmenn yfir mikilli ánægju með frumvarpið og fram kom að langflestir myndu fá hækkun á grunnlífeyri.

Ef jafnan

langflestir + x = allir

er skoðuð munu líklega flestir álykta að lausnin sé x = fáir.

Berum saman við frétt um jarðskjálfta sem varð 1500 manns að bana í 30 þús. manna þorpi. Hér má segja að langflestir hafi komist lífs af, en ef jafnan hér að framan er skoðuð aftur myndu nú fæstir segja að lausnin x= fáir sé rétt. Samhengið skiptir máli.

Þegar grunnlífeyrisgreiðslum var breytt frá og með síðustu áramótum féll grunnlífeyrir alveg niður hjá þeim sem hafa 530 þús. eða meira í lífeyrissjóðstekjur. Þetta olli að meðaltali um 37 þús. kr. skerðingu á mánuði hjá tæplega 1400 grunnlífeyrisþegum eða u.þ.b. 6% tekjumissi. Áður höfðu lífeyrissjóðstekjur ekki skert grunnlífeyri. Heildarfjöldi allra grunnlífeyrisþega var tæp 28 þús. í desember 2016. Nú geta menn velt fyrir sér lausn á jöfnunni að framan í þessu tilviki.

Það er huggun gegn harmi þeirra sem misstu grunnlífeyrinn, að sú fjárhæð sem sparast dugir vel fyrir góðri launahækkun þingmanna.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×