Viðskipti innlent

Svanhildur Nanna ætlar að bjóða sig fram í stjórn VÍS 

Hörður Ægisson skrifar
Svanhildur Nanna og eiginmaður hennar eru fyrrverandi eigendur Skeljungs.
Svanhildur Nanna og eiginmaður hennar eru fyrrverandi eigendur Skeljungs.
Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og hluthafi í VÍS, hyggst bjóða sig fram í stjórn tryggingafélagsins á aðalfundi félagsins sem fer fram 15. mars næstkomandi. Svanhildur staðfestir þetta í samtali við Markaðinn en hún og eiginmaður hennar, Guðmundur Örn Þórðarson, eiga samanlagt um átta prósenta hlut í VÍS. Guðmundur átti sæti í stjórn félagsins um tíma en dró framboð sitt í stjórn félagsins til baka á síðasta aðalfundi í mars í fyrra.

Þá segir Svanhildur að ákvörðun hennar um að sækjast eftir stjórnarsæti í VÍS þýði jafnframt að hún muni ekki bjóða sig fram í stjórn Icelandair Group en í samtali við Markaðinn fyrr í þessum mánuði sagðist hún vera að íhuga slíkt stjórnarframboð.

Stjórn VÍS er í dag skipuð Herdísi Dröfn Fjeldsted, sem er jafnframt stjórnarformaður, Jostein Sorvoll, Helgu Hlín Hákonardóttur og Reyni Finndal Grétarssyni. Benedikt Gíslason sagði sig úr stjórn félagsins í nóvember 2016 samhliða því að hann fór í stjórn Kaupþings.

Hjónin Svanhildur og Guðmundur, sem voru á sínum tíma aðaleigendur Skeljungs, eru á meðal stærstu einkafjárfesta í hluthafahópi VÍS. Þá eiga þau átta prósent hlut í Kviku í gegnum félagið K2B fjárfestingar en VÍS keypti jafnframt í byrjun þessa árs um 22 prósent í bankanum.

Tryggingafélagið skilaði hagnaði upp á 1.469 milljónir króna á árinu 2016 borið saman við 2.076 milljóna hagnað árið áður. Hlutabréfaverð VÍS hefur hækkað um 6,6 prósent það sem af er árinu.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×