Íslenski boltinn

Viðar Ari æfir með Brann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Ari Jónsson spilaði mjög vel síðasta sumar.
Viðar Ari Jónsson spilaði mjög vel síðasta sumar. vísir/hanna

Viðar Ari Jónsson, bakvörður Fjölnis í Pepsi-deild karla í fótbolta, er á leið til norska úrvalsdeildarfélagsins Brann á reynslu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjölnismönnum en þessi öflugi leikmaður sem hefur farið á kostum undanfarin ár með Grafarvogsliðinu verður til æfinga í Bergen frá 28. febrúar til 5. mars.

Viðar Ari, sem kom upp í meistaraflokk sem sóknarmaður, sló fyrst í gegn sumarið 2015 þegar hann spilaði sem vinstri bakvörður. Hann er réttfættur og var færður yfir í hægri bakvörðinn fyrir síðustu leiktíð þar sem hann spilaði einnig mjög vel.

Viðar þreytti frumraun sína með landsliðinu í janúar þegar hann kom inn á sem varamaður í úrslitaleik Kínabikarsins á móti Síle en hann var einnig valinn í hópinn sem mætti Mexíkó í Las Vegas á dögunum.

Þessi 22 ára gamli bakvörður á að baki 92 leiki með Fjölni í efstu tveimur deildum Íslandsmótsins og bikarnum og hefur skorað í þeim fimm mörk, þar af eitt gullfallegt mark á móti Ólafsvíkingum á síðustu leiktíð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira