Körfubolti

Elvar frábær og Barry varð deildarmeistari | Sjáið Elvar fagna í klefanum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson.
Elvar Már Friðriksson. Vísir/Getty
Elvar Már Friðriksson og félagar í Barry háskólaliðinu tryggðu sér í nótt deildarmeistaratitilinn Sunshine State Conference.

Barry vann þá tíu stiga sigur á Florida Southern, 98-88, og hefur þar með unnið 20 af 25 deildarleikjum sínum. Aðeins einn leikur er eftir og því getur ekkert lið náð Barry.

Elvar Már átti enn einn stórleikinn en hann var með 27 stig, 10 stoðsendingar og 4 stolna bolta í nótt. Þetta var áttundi leikur hans á tímabilinu þar sem hann hefur 10 eða fleiri stoðsendingar.

Elvar var magnaður í fyrri hálfleiknum þar sem hann var með 18 stig,  7 stoðsendingar og 3 stolna bolta en Barry vann fyrri hálfleikinn 55-48.  Elvar var bæði stigahæstur og stoðsendingahæstur hjá Barry í þessum fyrri hálfleik og kom þar með beinum hætti að 15 af 22 körfum liðsins.

Í leikjum 25 á tímabilinu hefur Elvar skorað 15,7 stig og gefið 7,8 stoðsendingar að meðaltali. Njarðvíkingurinn er búinn að koma sér vel fyrir á Flórída og er algjör lykilmaður í sínu liði. Það er síðan ekki verri meðmæli að það lið sé síðan það besta í Sunshine State deildinni.

Framundan er síðan úrslitakeppni Sunshine State Conference en fyrst eiga Elvar Már og félagar eftir að spila lokaleik sinn í deildinni sem verður á móti Embry-Riddle skólanum á laugardaginn.  Úrslitakeppnin hefst síðan 1. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×