Viðskipti innlent

Hagar loka Topshop á Íslandi

Haraldur Guðmundsson skrifar
Verslun Topshop í Kringlunni var opnuð 2007.
Verslun Topshop í Kringlunni var opnuð 2007. Vísir/Vilhelm
Stjórnendur verslunarfyrirtækisins Haga hafa ákveðið að loka verslunum Topshop á Íslandi. Þetta staðfestir Finnur Árnason, forstjóri Haga, í samtali við Vísi.

Finnur Árnason, forstjóri Haga
„Það er í rauninni stutt eftir af leigusamningunum og því var tekin ákvörðun um að framlengja ekki. Þetta er meginástæðan,“ segir Finnur.

Hagar reka tvær Topshop tískuvöruverslanir hér á landi eða í Smáralind og Kringlunni. Þær eru starfræktar með sérleyfissamningi við Arcadia Group Brands Ltd. í Bretlandi.

Finnur segir að versluninni í Smáralind verði lokað í apríl og í Kringlunni í ágúst eða september. Aðspurður hvort koma sænska fataverslunarrisans H&M hingað til lands, sem mun opna bæði í Smáralind og Kringlunni, hafi átt þátt í ákvörðuninni ítrekar Finnur að stutt sé eftir af leigusamningunum.

„Það er komið að lokun leigusamninga og það gerir það að verkum að þessi ákvörðun var tekin,“ segir Finnur. Topshop í Smáralind opnaði árið 2001 en verslunin í Kringlunni árið 2007.

Verslun H&M í Smáralind verður opnuð síðar á árinu en hún verður rekin í sama verslunarplássi og Debenhams var áður í. Sú fataverslun var einnig rekin af Högum og henni lokað í byrjun árs. H&M opnar svo á 2. hæð Kringlunnar í verslunarrýminu þar sem Hagkaup, sem einnig er í eigu Haga, var áður.


Tengdar fréttir

Hagkaup lokaði eftir rétt tæp 30 ár

Verslun Hagkaups á 2. hæð Kringlunnar var lokað á mánudag. Rýmingarsölu þar sem vörur voru seldar með 50 prósenta afslætti lauk daginn áður og búðin þá gott sem tæmd.

Debenhams lokað í Smáralind á næsta ári

Hagar náðu ekki samningum við Smáralind um áframhaldandi leigusamning fyrir verslunina Debanhams. Henni verður því lokað í síðasta lagi í maí á næsta ári. Hefur ekkert að gera með mögulega komu H&M hingað, segir forstjóri Haga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×