Íslenski boltinn

Elín Metta með tvö þegar Valur tryggði sér Reykjavíkurmeistaratitilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elín Metta skoraði tvö og fékk gullið tækifæri til að fullkomna þrennuna.
Elín Metta skoraði tvö og fékk gullið tækifæri til að fullkomna þrennuna. vísir/hanna
Valur er Reykjavíkurmeistari kvenna í fótbolta eftir 3-1 sigur á Fylki í úrslitaleik í Egilshöllinni í kvöld.

Karlalið Vals varð Reykjavíkurmeistari á dögunum og konurnar léku sama leik í kvöld.

Fylkir fékk sannkallaða draumabyrjun en Sæunn Rós Ríkharðsdóttir kom Árbæingum yfir þegar aðeins 33 sekúndur voru liðnar af leiknum.

Margrét Lára Viðarsdóttir jafnaði metin í 1-1 á 45. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Í seinni hálfleik var komið að Elínu Mettu Jensen. Hún kom Val yfir á 47. mínútu og skoraði svo sitt annað mark á 68. mínútu.

Elín Metta fékk tækifæri til að ná þrennunni þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Brotið var á Elínu Mettu innan teigs, hún fór sjálf á punktinn en Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir varði spyrnu hennar.

Það kom þó ekki að sök því Valur vann leikinn 3-1 og er því Reykjavíkurmeistari 2017.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×