Íslenski boltinn

Málfríður Erna Reykjavíkurmeistari í tíunda sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reykjavíkurmeistarar Vals.
Reykjavíkurmeistarar Vals. Mynd/Fésbókarsíða Valur Fótbolti

Valskonan Málfríður Erna Sigurðardóttir vann tímamótatitil í Egilshöllinni í gærkvöldi þegar Valur varð Reykjavíkurmeistari kvenna í knattspyrnu.

Málfríður Erna og félagar hennar í Val unnu þá 3-1 sigur á Fylki eftir að hafa lent 1-0 undir strax á fyrstu mínútu.

Málfríður Erna Sigurðardóttir snéri aftur í sitt uppeldisfélag í vetur eftir að hafa spilað tvö síðustu tímabil með Breiðabliki þar sem hún varð bæði Íslandsmeistari (2015) og bikarmeistari (2016).

Málfríður Erna varð Reykjavíkurmeistari í tíunda skipti í gær en þær Dóra María Lárusdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir hafa einnig unnið þennan titil oft á ferlinum.
 
Málfríður Erna varð einnig Reykjavíkurmeistari með Val 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2008, 2010, 2011 og 2013. Hún missti af Reykjavíkurmeistaratitlinum árin 2009, 2012 og 2014 og svo í fyrra þegar hún lék með Breiðabliki.

Það má deila um það hvort að Valskonan Kristín Ýr Bjarnadóttir hafi líka orðið Reykjavíkurmeistari í tíunda sinn í gær en á pappírnum varð hún það þó ekki sem leikmaður.  Hún er aðstoðarþjálfari liðsins og fæ því titilinn á ferilskrána sem slíkur.

Kristín Ýr var á varamannabekk Valsliðsins í úrslitaleiknum en kom ekkert við sögu. Hún spilaði ekki eina mínútu í Reykjavíkurmótinu í ár.

Kristín Ýr tók þátt í níunda Reykjavíkurmeistaratitli Vals í fyrra en þá vantaði hinsvegar þær Málfríði Ernu og Dóru Maríu Lárusdóttur.

Dóra María Lárusdóttir varð Reykjavíkurmeistari í níunda sinn í gær og því ekki ólíklegt að sá tíundi detti inn á næstu árum.
Fleiri fréttir

Sjá meira