Íslenski boltinn

Málfríður Erna Reykjavíkurmeistari í tíunda sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reykjavíkurmeistarar Vals.
Reykjavíkurmeistarar Vals. Mynd/Fésbókarsíða Valur Fótbolti

Valskonan Málfríður Erna Sigurðardóttir vann tímamótatitil í Egilshöllinni í gærkvöldi þegar Valur varð Reykjavíkurmeistari kvenna í knattspyrnu.

Málfríður Erna og félagar hennar í Val unnu þá 3-1 sigur á Fylki eftir að hafa lent 1-0 undir strax á fyrstu mínútu.

Málfríður Erna Sigurðardóttir snéri aftur í sitt uppeldisfélag í vetur eftir að hafa spilað tvö síðustu tímabil með Breiðabliki þar sem hún varð bæði Íslandsmeistari (2015) og bikarmeistari (2016).

Málfríður Erna varð Reykjavíkurmeistari í tíunda skipti í gær en þær Dóra María Lárusdóttir og Kristín Ýr Bjarnadóttir hafa einnig unnið þennan titil oft á ferlinum.
 
Málfríður Erna varð einnig Reykjavíkurmeistari með Val 2001, 2002, 2003, 2004, 2005, 2008, 2010, 2011 og 2013. Hún missti af Reykjavíkurmeistaratitlinum árin 2009, 2012 og 2014 og svo í fyrra þegar hún lék með Breiðabliki.

Það má deila um það hvort að Valskonan Kristín Ýr Bjarnadóttir hafi líka orðið Reykjavíkurmeistari í tíunda sinn í gær en á pappírnum varð hún það þó ekki sem leikmaður.  Hún er aðstoðarþjálfari liðsins og fæ því titilinn á ferilskrána sem slíkur.

Kristín Ýr var á varamannabekk Valsliðsins í úrslitaleiknum en kom ekkert við sögu. Hún spilaði ekki eina mínútu í Reykjavíkurmótinu í ár.

Kristín Ýr tók þátt í níunda Reykjavíkurmeistaratitli Vals í fyrra en þá vantaði hinsvegar þær Málfríði Ernu og Dóru Maríu Lárusdóttur.

Dóra María Lárusdóttir varð Reykjavíkurmeistari í níunda sinn í gær og því ekki ólíklegt að sá tíundi detti inn á næstu árum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira