Innlent

Mikill erill hjá björgunarsveitum: Bílar fokið út af og foktjón vegna óveðurs

Birgir Olgeirsson skrifar
Töluverð ofankoma var á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag.
Töluverð ofankoma var á höfuðborgarsvæðinu fyrr í dag. Vísir/Anton Brink

Veðrið er að mestu leyti gengið niður á höfuðborgarsvæðinu en björgunarsveitarfólk er í startholunum ef á þarf að halda vegna óveðurs sem á að ná hámarki nú síðdegis á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi nú síðdegis. Búist er við því að það gangi niður um klukkan 20 í kvöld.

Þó verður áfram hvasst og skafrenningur á fjallvegum á Vestfjörðum fram á nótt og ofankoma á heiðarvegum Austfjarða fram yfir miðnætti.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir í samtali við Vísi að um 150 til 160 björgunarsveitarfólk hafi sinnt óveðursverkefnum í dag, þar á meðal aðstoð við lokun á vegum fyrir Vegagerðina og sinnt foktjóni á Reykjanesi og á Akranesi. Þá aðstoðaði björgunarsveitarfólk ökumenn sem höfðu lent í vandræðum, þá aðallega á Kjalarnesi þar sem bílar hafa fokið út af.

Hann segir að þær forvarnir sem ráðist var í, í gærkvöldi, hafi skilað sér. Sendar voru út viðvaranir á þrjú þúsund viðbragðsaðila í gær vegna veðurs og til marks um það voru ferðamannastaðir nánast tómir. Var einnig gripið til lokana á vegum.

Á Norðausturlandi hefur vegum í Mývatnssveit, Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði verið lokað vegna óveðurs þar.

Þorsteinn segir að fylgst sé grannt með gangi mála þar. 

„Það er hluti af viðbúnaðinum og svo er okkar fólk í startholunum ef á þarf að halda.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira