Körfubolti

Umdeildur eigandi Knicks aðstoðaði kosningabaráttu Trump

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Dolan þykir skrautlegur fýr.
Dolan þykir skrautlegur fýr. Vísir/getty
James Dolan, eigandi New York Knicks, þykir skrautlegur karakter en hann hefur verið töluvert gagnrýndur undanfarið eftir að hafa vísað Charles Oakley, fyrrum leikmann liðsins, úr húsi á leik liðsins gegn Los Angeles Clippers á dögunum.

Líkt og Vísir hefur fjallað um var Oakley vísað úr húsi og var hann handtekinn en myndband af því má sjá hér. Dolan fylgdi því eftir með því að greina frá því að Oakley væri bannað að koma í Madison Squere Garden, höll New York Knicks-liðsins.

Nú berast fréttir þess frá Bandaríkjunum að Dolan hafi aðstoðað núverandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, í kosningarbaráttunni með 300.000 dollara framlagi, rúmlega 32 milljónir íslenskra króna.

Er það algengt að eigendur liða og leikmenn í NBA-deildinni styðji forsetaefnin í kosningarbaráttunni en fáir forsetaframbjóðendur hafa mætt eins miklu mótlæti af hálfu íþróttamanna.

Hafa bestu þjálfarar og leikmenn deildarinnar gagnrýnt stefnu Trump sem forseti Bandaríkjanna en LeBron James, ein stærsta stjarna deildarinnar, neitaði að gista á hóteli Trump á dögunum.

Þá hafa leikmenn úr ýmsum íþróttagreinum Bandaríkjanna sagst ekki ætla að sniðganga heimsóknina í Hvíta húsið þar sem meistaraliðið fær að hitta forsetann.

Dolan er þó ekki eini eigandi íþróttaliðs í Bandaríkjunum sem aðstoðaði Trump en Richard DeVos, eigandi Orlando Magic, lagði fram 70.000 dollara.

Var það þó töluvert minna en Woody Johnson, eigandi New York Jets, sem lagði til 449.200 dollara og fékk að launum utanríkisráðherrastöðu í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×