Innlent

Ærið verkefni að ryðja og gæti tekið nokkra daga

Samúel Karl Ólason skrifar
„Það er gríðarmikið verk í gangi og það fer ágætlega af stað.“
„Það er gríðarmikið verk í gangi og það fer ágætlega af stað.“ Vísir/Vilhelm
Ljóst er að mokstur og ruðningur húsagata mun taka nokkra daga. Gífurlegt magn af snjó féll á höfuðborgarsvæðið í nótt og hefur aldrei snjóað meira í febrúar. Íbúar eru beðnir um að sína þolinmæði.

„Það er gríðarmikið verk í gangi og það fer ágætlega af stað. Við erum með einhver 40 tæki að vinna í þessu og það er unnið eftir ákveðinni áætlun,“ segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkur.

Hann segir að fyrst sé unnið að því að hreinsa stofngötur, síðan tengigötur og síðan verði farið í húsagöturnar. Fólk hefur verið beðið um að fara ekki af stað nema á vel útbúnum bílum. Fastir bílar geta tafið moksturinn.

„Það er ljóst að það mun taka nokkra  daga að eiga við þær,“ segir Bjarni. „Þetta er það mikið og þetta hverfur ekki að sjálfu sér.“

Borgin vill biðja fólk að vera þolinmótt því það er ærið verkefni að hreinsa götur Reykjavíkur eftir nóttina

Snjómoksturstækin eiga einnig erfitt með að fara um götur borgarinnar en íbúar í Vættaborgum aðstoðuðu ökumanns slíks tækis við að losa það nú í morgun, eins og sjá má hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×