Körfubolti

Brynjar Þór um skíðaferðina: Galin ákvörðun og mikil vanvirðing við Snæfell

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brynjar Þór Björnsson segir skíðaferðina vanvirðingu við Snæfellinga.
Brynjar Þór Björnsson segir skíðaferðina vanvirðingu við Snæfellinga. vísir/anton brink

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður Íslands- og bikarmeistara KR í körfubolta, tekur undir með Inga Þór Steinþórssyni, þjálfara Snæfells, og segir skíðaferð Ívars Ásgrímssonar, þjálfara Hauka, vanvirðing við Hólmara. Ívar missir af leik Hauka og Snæfells á fimmtudaginn þar sem hann verður í brekkunum utan landsteinanna.

Ívar pantaði sér skíðaferð síðasta sumar eins og Vísir hefur fjallað um og var fjallað um síðasta þætti Domino´s-Körfuboltakvölds. Ívar er sjálfur ósáttur við þessa umfjöllun en í Facebook-pistli segir Ívar hana vera ósanngjarna.

Haukaþjálfarinn valdi þessa tímasetningu sérstaklega og segir sér til varnar: „Þessi ferð var ákveðin í sumar og var tíminn valinn sérstaklega, ekki fyrir bikarhelgi og nægur tími fyrir úrslitakeppni. Þessi leikur sem ég missi af, heimaleikur, hefði kannski verið sá leikur sem ég gæti verið frá.“

Skíðaferðina var síðasta málefni framlengingar í síðasta Körfuboltakvöldi:

Inga Þór er ekki skemmt þar sem undirliggjandi eru skilaboðin að Haukarnir eigi að vinna sigurlausa Snæfellinga án þess að vera með þjálfarann á hliðarlínunni.

„Mér finnst þetta hálf sorglegt. Persónulega gæti ég ekki farið í frí frá liðinu [...] Strákunum [mínum] finnst þetta óvirðing við sig og nú er það þeirra að nýta sér það,“ segir Ingi Þór Steinþórsson í viðtali sem verður spilað í Akraborginni í heild sinni á X977 í dag.

Brynjar Þór tjáir sig um málið á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann segist sammála fyrrverandi aðstoðarþjálfara sínum. Íslandsmeistaranum finnst lítið til þesasrar skíðaferðar Ívars koma.

„Mikið er ég sammála Inga. Þessi ákvörðun að fara í frí á miðju tímabili og missa af leik er gjörsamlega galin. Þetta er mikil vanvirðing við Snæfell og körfuboltan í landinu. Þetta á ekki að líðast,“ segir Brynjar Þór Björnsson.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira