Körfubolti

Fyrrum troðslukóngur fór bókstaflega á milli fóta varnarmanns | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Nate Robinson, fyrrverandi leikstjórnandi liða á borð við New York Knicks, Boston Celtics og Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta, er engum líkur á vellinum eins og sannaðist á tíu ára ferli hans í NBA.

Hann er einn minnsti leikmaður sögunnar sem hefur unnið troðslukeppni stjörnuhelgarinnar en þrátt fyrir að vera aðeins 175 cm hár er Robinson eini maðurinn í sögunni sem hefur unnið troðslukeppni NBA-deildarinnar þrisvar sinnum. Það gerði hann árin 2006, 2009 og 2012.

Robinson spilaði síðast í NBA árið 2015 en í fyrra var hann á mála hjá Hapoel Tel Aviv í Ísrael. Núna spilar hann í þróunardeild NBA eða NBA D-league með Delaware 87ers í von um að fá aftur samning í NBA.

Hvort sem sá draumur rætist eða ekki minnti hann allavega hressilega á sig um helgina þegar hann bauð upp á ein ótrúlegustu tilþrif sem hafa sést í körfubolta vestanhafs í langan tíma.

Í leik á móti kanadíska liðinu Raptors 905 fór hann nefnilega á milli fóta varnarmanns og nældi sér í tvö vítaskot með því að keyra að körfunni. Hreint ótrúleg sena.

Robinson lenti í tveggja manna pressu en leysti hana svona líka snilldarlega með því að drippla boltanum á milli fóta hins 222 cm háa Walter Tavaers. Hann lét það ekki nægja heldur fór sjálfur á milli fóta risans frá Grænhöfðaeyjum.

Þessi ótrúlegu tilþrif má sjá í spilaranum hér að ofan en hér að neðan má sjá tíu flottustu troðslur Nate Robinson í NBA-deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×