Körfubolti

Fyrrum troðslukóngur fór bókstaflega á milli fóta varnarmanns | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar

Nate Robinson, fyrrverandi leikstjórnandi liða á borð við New York Knicks, Boston Celtics og Chicago Bulls í NBA-deildinni í körfubolta, er engum líkur á vellinum eins og sannaðist á tíu ára ferli hans í NBA.

Hann er einn minnsti leikmaður sögunnar sem hefur unnið troðslukeppni stjörnuhelgarinnar en þrátt fyrir að vera aðeins 175 cm hár er Robinson eini maðurinn í sögunni sem hefur unnið troðslukeppni NBA-deildarinnar þrisvar sinnum. Það gerði hann árin 2006, 2009 og 2012.

Robinson spilaði síðast í NBA árið 2015 en í fyrra var hann á mála hjá Hapoel Tel Aviv í Ísrael. Núna spilar hann í þróunardeild NBA eða NBA D-league með Delaware 87ers í von um að fá aftur samning í NBA.

Hvort sem sá draumur rætist eða ekki minnti hann allavega hressilega á sig um helgina þegar hann bauð upp á ein ótrúlegustu tilþrif sem hafa sést í körfubolta vestanhafs í langan tíma.

Í leik á móti kanadíska liðinu Raptors 905 fór hann nefnilega á milli fóta varnarmanns og nældi sér í tvö vítaskot með því að keyra að körfunni. Hreint ótrúleg sena.

Robinson lenti í tveggja manna pressu en leysti hana svona líka snilldarlega með því að drippla boltanum á milli fóta hins 222 cm háa Walter Tavaers. Hann lét það ekki nægja heldur fór sjálfur á milli fóta risans frá Grænhöfðaeyjum.

Þessi ótrúlegu tilþrif má sjá í spilaranum hér að ofan en hér að neðan má sjá tíu flottustu troðslur Nate Robinson í NBA-deildinni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira