Viðskipti innlent

Helgi Magnússon í hóp stærstu hluthafa Nýherja

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Magnússon hóf að kaupa bréf í Nýherja í byrjun þessa árs.
Helgi Magnússon hóf að kaupa bréf í Nýherja í byrjun þessa árs.

Helgi Magnússon, fjárfestir og fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og Lífeyrissjóðs verslunarmanna, er kominn í hóp stærstu hluthafa Nýherja með 1,3 prósenta hlut. Félagið Varðberg ehf., sem er að fullu í eigu Helga, átti þannig rúmlega 6 milljónir hluta í Nýherja í lok síðustu viku sem gerir það að 13. stærsta hluthafa upplýsingatæknifyrirtækisins. Miðað við gengi bréfa við lokun markaða í gær er hlutur Helga í Nýherja metinn á um 170 milljónir króna.

Helgi hóf að kaupa bréf í Nýherja í upphafi þessa árs en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um liðlega 40 prósent frá áramótum. Nýherji birti ársuppgjör sitt í lok síðasta mánaðar þar sem meðal annars kom fram að tekjur samstæðunnar hefðu aukist um 11 prósent á milli ára og EBITDA-hagnaður um sjö prósent. Í afkomutilkynningu félagsins var haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, að nýliðið rekstrarár hefði verið „með þeim betri í sögu félagsins“.

Hlutabréfaverð Nýherja hefur hækkað um 20 prósent síðan félagið birti ársuppgjör sitt fyrir um tveimur vikum.

Helgi er stjórnarmaður og hluthafi í Marel og N1. Félagið Hofgarðar ehf., sem er að fullu í eigu Helgu, á þannig 2,24 prósenta hlut í N1 og þá fer Eignarhaldsfélag Hörpu, sem er í meirihlutaeigu Helga, með tæplega 0,4 prósenta hlut í Marel. Markaðsvirði þessara hluta er samanlagt um 1.650 milljónir. Eignarhaldsfélag Hörpu minnkaði hlut sinn í Marel fyrr í vikunni þegar félagið seldi eina milljón hluta á genginu 309.

Hagnaður þriggja félaga Helga – Hofgarða, Varðbergs og Eignarhaldsfélags Hörpu – nam 838 milljónum eftir skatta á árinu 2015. Fyrir utan hlutafjáreign í skráðum félögum á markaði er Helgi jafnframt á meðal stærstu hluthafa í Bláa lóninu með rúmlega 5 prósenta hlut.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 
Fleiri fréttir

Sjá meira