Lífið

Dansað til minningar um Birnu Brjánsdóttur

Margeir hélt líka uppi stuðinu á Milljarður rís í fyrra.
Margeir hélt líka uppi stuðinu á Milljarður rís í fyrra. Mynd/ Hörður Ásbjörnsson

Dansviðburðurinn Miljarður rís verður haldinn um land allt í fimmta sinn í hádeginu á morgun, föstudag. Dansað verður til minningar um Birnu Brjánsdóttur í Hörpu. Tilgangur verkefnisins er að vekja fólk til umhugsunar um kynbundið ofbeldi. „Það er ekki í lagi að ein af hverjum þrem konum verði fyrir ofbeldi og ein af hverjum fimm konum verði fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þetta eru sláandi tölur, “ segir plötusnúðurinn Margeir Ingólfsson sem sér um tónlistina á stærsta viðburðinum hér á landi, í Silfurbergi í Hörpu.

Að hans sögn er Milljarður rís stórkostlegur viðburður þar sem magnað andrúmsloft myndast. Viðburðurinn verður haldinn í samstarfi við tónlistarhátíðina Sónar Reykjavík sem einnig fer fram í Hörpu um helgina. Á sama tíma fara fara fram minni dansviðburðir um land allt, þar á meðal í Hofi á Akureyri og í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ.

Um 2.000 manns mættu í Hörpu og dönsuðu saman gegn kynbundnu ofbeldi í fyrra. Færri komust að en vildu svo einhverjir dönsuðu frammi á gangi. „Það er ekki hægt annað en að sogast inn í þessa stemming og sleppa fram af sér beislinu, “ segir hann.
Dj Margeir segir að ástæðan fyrir því að minnast eigi Birnu Brjánsdóttur sérstaklega sé að þema UN Women í ár sé öryggi í borgum, hvort sem það er á Íslandi, Indlandi eða í Brasilíu.

„Tónlistarþemað í ár er 90’s tónlist,“ segir Margeir. Hann og Svala Björgvins munu snúa aftur undir merkjum hljómsveitarinnar Scope og flytja eitt vinsælasta lag ársins 1994, Was That All It Was. Lagið hefur ekki verið flutt í yfir tuttugu ár og verður ekki flutt aftur, þetta er því einstakt tækifæri. „Þar að auki eru alltaf leyniatriði hvert ár og ég get lofað því að í ár verður það algjör gleðibomba, “ bætir Margeir við að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira