Erlent

Palestínumenn fagna stefnubreytingu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Benjamín Netanjahú á blaðamannafundi með Donald Trump í Washington.
Benjamín Netanjahú á blaðamannafundi með Donald Trump í Washington. vísir/epa
Meðal Palestínumanna hafa lengi verið skiptar skoðanir á tveggja ríkja lausninni svonefndu, sem fæli í sér stofnun sjálfstæðs ríkis þeirra við hlið Ísraelsríkis.

Yfirlýsing Donalds Trump Bandaríkjaforseta, á fundi með Benja­min Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, um að Bandaríkjastjórn telji tveggja ríkja lausnina ekki lengur eina möguleikann í stöðunni hefur því ekki mætt einróma andstöðu frá Palestínumönnum, þótt forystumenn þeirra hafi varað Trump við því að falla frá henni.

Saeb Erekat, fyrrverandi aðalsamningamaður Palestínumanna í friðarviðræðum við Ísrael, sagði til dæmis hinn möguleikann vera eitt ríki þar sem Palestínumenn nytu fullra borgararéttinda til jafns við gyðinga.

Hann sagði í yfirlýsingu á miðvikudag að tveggja ríkja lausnin yrði í raun afar erfið málamiðlun fyrir Palestínumenn, en í sameiginlegu lýðræðisríki gyðinga, múslima og kristinna yrðu gyðingar ekki lengur allsráðandi því þeir yrðu ekki í meirihluta.

„Í dag búa nærri sex milljónir Palestínumanna undir stjórn Ísraela á öllu því svæði sem sögulega kallast Palestína, auk þess sem nærri sex milljónir Palestínumanna búa í útlegð,“ sagði Erekat, en alls búa um átta milljónir manna innan landamæra núverandi Ísraelsríkis, þar af aðeins um sex milljónir gyðinga.

Hann segir hins vegar að Netanjahú vilji í reynd koma á fót aðskilnaðarkerfi innan stækkaðra landamæra Ísraels, sem hefði þá lagt undir sig hernumdu svæðin á Vesturbakkanum og Gasaströnd. Sú hugmynd geti hins vegar aldrei orðið að veruleika.

„Þvert á hugmyndir Netanjahús um eitt ríki með tvískiptu kerfi, aðskilnaðarkerfi, er eini möguleikinn fyrir utan tvö fullvalda lýðræðisríki innan landamæranna frá 1967 sá að allir, jafnt gyðingar sem múslimar og kristnir, njóti sömu réttinda í sameiginlegu ríki sem yrði með veraldlegu lýðræðisskipulagi,“ segir Erekat.

Tveggja ríkja lausnin hefur áratugum saman verið helsta leiðarstefið í þeim tilraunum sem gerðar hafa verið til að fá Ísraela og Palestínumenn til þess að semja um frið.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×