Innlent

Veittist að ferðamanni á BSÍ og tók töskuna hans

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ferðamaðurinn var ekki með neina sjáanlega áverka en fann til í höfði og var ringlaður.
Ferðamaðurinn var ekki með neina sjáanlega áverka en fann til í höfði og var ringlaður. vísir/vilhelm

Karlmaður í annarlegu ástandi tók erlendan ferðamann haustaki og hrinti honum í jörðina um klukkan hálf sjö á BSÍ í gærkvöldi. Maðurinn hafði tekið tösku ferðamannsins og neitað að skila henni nema gegn greiðslu.

Þegar ferðamaðurinn neitaði að greiða fyrir töskuna réðst maðurinn á hann með þeim afleiðingum að hann fann til í höfði og var ringlaður en var ekki með sjáanlega áverka. Lögreglan handtók árásarmanninn sem er nú vistaður í fangageymslu.

Þá var annar maður handtekinn á bar í miðborginni um klukkan níu þar sem hann var að áreita og hóta erlendum ferðamönnum, og krafðist þess að þeir keyptu handa sér áfengi. Maðurinn var færður í fangageymslur.

Um klukkan þrjú í nótt fékk lögregla tilkynningu um ölvaðan mann að brjóta rúðu í húsi við Hverfisgötu. Mikið blæddi úr hendi mannsins og var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild, að því er segir í skeyti frá lögreglu.Fleiri fréttir

Sjá meira