Lífið

Dönsum gegn ofbeldi

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hin árlega dansbylting fer fram í Hörpu í fimmta skipti í dag.
Hin árlega dansbylting fer fram í Hörpu í fimmta skipti í dag. Mynd/Hörður Ásbjörnsson
„UN Women stendur fyrir hinni árlega dansbyltingu Milljarði rís í Hörpu er í dag 17. febrúar kl. 12-13 í boði Sónar Reykjavík en auk þess er dansað á 10 stöðum um land allt. Milljarður rís er dansbylting sem haldin er víða um heim. Með samtakamætti lætur heimsbyggðin til sín taka. Yfir milljarður karla, kvenna og barna kemur saman til að dansa fyrir réttlæti, fyrir heimi þar sem allir fá að njóta sömu tækifæra án ótta við ofbeldi. Ofbeldi gegn konum er vandamál um allan heim við hvetjum alla til að taka afstöðu gegn ofbeldinu, mæta og dansa,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Í ár er heiðrað minning Birnu Brjánsdóttur heitinnar en í kjölfar hvarfs hennar í miðborg Reykjavíkur stigu fram fjöldi kvenna og lýstu ótta sínum og óöryggi þegar þær ferðast milli staða á kvöldin og að næturlagi.

„Fráfall Birnu snerti okkur öll og okkur fannst liggja beinast við að heiðra minningu Birnu. Við viljum minnast hennar með samstöðu, gleði og krafti þegar þúsundir manna, kvenna og barna koma saman um allt land með samtakamátt að vopni,“segir Inga Dóra.

Fimm ár eru liðin frá því viðburðurinn var haldinn í fyrsta skipti, en frá þeim tíma hefur dansbyltingin heldur betur stækkað.

„Við höfðum ekki mikla trú á að margir myndu koma og dansa í hádeginu. Það kom því ótrúlega á óvart og var alveg magnað að sjá þúsundir streyma inn í Hörpu til að sýna mótstöðu sína við ofbeldi og finna kraftinn í samtöðunni. Það myndast svo falleg og einstök stemmning þegar; fólk á öllum aldrei mætir og dansar með gleðina að vopni þrátt fyrir að tilgangurinn og undirtónninn sé grafalvarlegur,“ segir hún og bætir við að viðburðurinn stækkar með hverju árinu og við erum þakklát fyrir gott samstarf við Sónar Reykjavík öll þessi ár og Dj Margeir sem hefur séð til þess að dansinn duni í Hörpu frá upphafi.





Vigdís Finnbogadóttir dansar gegn ofbeldi. Mynd/Hörður Ásbjörnsson.
Í fyrra var slegið aðsóknarmet en tæplega þrjú þúsund manns komu saman í Hörpu, færri komust að en vildu og dansað var á göngum Hörpu. Þess ber einnig að geta að alls dansaði um fjögur þúsund manns um allt land.

„Við bjóðum upp á óvænt atriði á hverju ári á Milljarður rís og við lofum að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum með atriðið í ár. Það er gaman að tilkynna að í ár mun Svala Björgvins sem var í fararbroddi hljómsveitarinnar Scope,ásamt Dj Margeir ætla að taka næntís smellinn Was it all that was, einstakt tækifæri til að sjá þau koma saman eftir 20 ár. onfettíið sem er algjörlega ómissandi verður sem að sjálfsögðu á sínum stað, reifboltar verða á ferð og flugi um salinn en aðalsmerki viðburðarins er að mæta og tækla óréttlæti með gleði, samstöðu og krafti,“ segir Inga Dóra.

Samtakamátturinn er ótrúlegur á landsbyggðinni en aldrei hefur verið dansað jafn víða um landið og í ár.

„Í fyrra var dansað á sjö stöðum í ár verða haldnir tólf Milljarður rís viðburðir. Í ár verður dansað í Reykjavík, Akureyri, í Rifi Snæfellsnesi, Ísafirði, Seyðisfirði, Reykjanesbæ, Neskaupstað, Hvammstanga, Borgarnesi, Egilsstöðum, Hólmavík og á Höfn í Hornafirði. Auk þess höfum við heyrt að margir vinnustaðir, skólar og meira að segja leikskólar eru að skipuleggja sína eigin viðburði. Í þessum viðburðum birtist kraftur grasrótarinnar í sinni fallegustu mynd,“ útskýrir Inga Dóra.

Milljarðurinn vísar til þeirrar staðreyndar að ein af hverjum þremur konum í heiminum hafa þurft að þola kynferðisofbeldi. Ofbeldi gegn konum og stúlkum er vandamál um allan heim, með því að mæta á Milljarð rís tekur fólk afstöðu gegn kynbundnu ofbeldinu.

„Í ár beinum við sjónum að verkefni UN Women, Öruggar borgir, sem vinnur að því að gera borgir öruggari fyrir konur og stúlkur víða um heim. Einföld leið til þess að draga úr ofbeldi er að lýsa upp dimmar götur. Í Nýju Delí hefur ljósastaurum verið komið í borginni, m.a. við strætó biðskýli og á almenningssalernum. í Mexíkóborg hafa sérstakir kvennastrætóar verið settir á laggirnar sem gera konum kleift að ferðast til og frá vinnu óáreittar. UN Women vinnur í samstarfi við borgaryfirvöld víða um heim að einföldum og ódýrum aðgerðum sem miða að því að uppræta og draga úr ofbeldi gegn konum og stúlkum á almenningssvæðum,“ segir hún 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×