Lífið

Öruggari eftir að hafa lært glímu

Vera Einarsdóttir skrifar
Sóllilja segist nær aldrei mála sig. "Ég nenni því eiginlega ekki.“
Sóllilja segist nær aldrei mála sig. "Ég nenni því eiginlega ekki.“ MYND/GVA

Sóllilja Baltasarsdóttir, markaðsstjóri bardagaíþróttaklúbbsins Mjölnis, hefur staðið í ströngu að undanförnu en ný húsakynni Mjölnis verða opnuð í gömlu Keiluhöllinni í Öskjuhlíð á morgun. Sjálf er hún kolfallin fyrir glímu og finnur til aukins örygggis eftir að hún náði tökum á henni. Sóllilja kynntist Jóni Viðari Arnþórssyni, formanni Mjölnis, í fyrra en bæði hafa starfað við kvikmyndir.

Sóllilja hafði farið á tvö námskeið í glímu í Mjölni áður en hún kynntist Jóni Viðari. „Ég hef alltaf haft áhuga á bardagaíþróttum. Ég er hestastelpa í grunninn og hugsa að það tengist óbeint enda hvort tveggja jaðar- og spennuíþróttir. Ég prufaði fótbolta, fimleika og handbolta sem barn en fann mig engan veginn í því. Ég féll hins vegar kylliflöt fyrir glímunni,“ segir Sóllilja sem keppti á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti fyrir skemmstu og hreppti þriðja sætið þrátt fyrir að hafa aðeins æft í þrjá mánuði.

Sóllilju þótti reyndar svolítið erfitt að byrja. „Það er í fyrstu mjög skrýtið að liggja ofan á annarri, og jafnvel ókunnugri, manneskju en eftir nokkra tíma hættir það að skipta máli.“

Sóllilja hafnaði í þrjiðja sæti á sínu fyrsta Íslandsmeistaramóti í glímu.

Öruggari niðri í bæ
Sóllilja segir mjög gagnlegt að læra að takast á. „Mér finnst ég miklu öruggari og líður til dæmis betur niðri í bæ. Ég er kannski ekki komin á þann stað að ráða við stærri og sterkari einstakling en ég veit að það kemur og það veitir mér mikla öryggistilfinningu. Ég vildi óska að fleiri stelpur vissu hvað þetta getur gert þeim gott,“ segir Sóllilja, en enn sem komið er hallar á stelpur í greininni.

Sóllilja kynntist Jóni Viðari við kvikmyndatökur en hann hefur verið ráðgefandi í bardagasenum í mörgum íslenskum kvikmyndum. Þar á meðal í kvikmyndum Baltasars Kormáks, föður Sóllilju. Sóllilja hefur aðstoðað föður sinn í gegnum tíðina og var nú síðast þriðji aðstoðarleikstjóri Eiðsins.

„Við Jón Viðar ákváðum strax eftir fyrsta stefnumót að vera saman. Við urðum bara ástfangin og það er ekkert við því að gera,“ segir Sóllilja. Hún verður 21 árs á þessu ári og var pínulítið stressuð að segja föður sínum frá enda Jón Viðar nokkuð eldri en hún. „Hann tók þessu samt eiginlega best af öllum og sagði bara betra að vita af mér með þroskuðum einstaklingi en einhverjum ungum kjána.“

Sóllilja segir kvikmyndabransann krefjandi og að faðir hennar geri miklar kröfur. „Hann tekur mig heldur engum vettlingatökum, nema síður sé. Vinnan í kringum Eiðinn var hins vegar mjög mikil­væg fyrir okkur pabba og gaf okkur tækifæri til meiri samveru en oft áður en hann hefur verið mikið á ferðinni í gegnum tíðina.“

Sóllilja var þriðji aðstoðarleikstjóri Eiðsins. Vinnan í kringum myndina gaf henni og föður hennar tækifæri til meiri samveru en oft áður.

Á snilldarfjölskyldu
Sóllilja á sjö systkini. Tvo bræður og systur móðurmegin og þrjá bræður og stjúpsystur föðurmegin. „Ég á snilldarfjölskyldu og myndi ekki vilja hafa hana neitt öðruvísi. Við erum öll að gera okkar og ég spái ekki mikið í það dags daglega. Ég hef hins vegar lært inn á alls kyns týpur og það hefur bara styrkt mig félagslega.“

Aðspurð segist Sóllilja hafa séð persónueinkenni föður síns skína í gegn í Eiðnum og að hann hafi eflaust hugsað til hennar og hinna barna sinna þegar hann setti sig inn í hlutverk föður sem missir barn sitt út í óreglu. „Hann er mjög fastur á því að ég geri hlutina rétt og geri þá sjálf en ef eitthvað bjátar raunverulega á þá gengur hann í málin og reddar hlutum.“

Nei er ekki svar
Aðspurð segist Sóllilja hafa lært margt af því að starfa við kvikmyndir. „Það hefur kennt mér þrjósku, þrautseigju og að láta hlutina gerast,“ segir hún og tekur dæmi: „Það þarf kannski að færa fjörutíu bíla af götu fyrir töku. Það þýðir ekkert að sætta sig við að það verði einn eftir. Nei er ekki svar í þessum efnum. Það er kannski mesti lærdómurinn og gott veganesti.“

Sá lærdómur hefur gagnast Sóllilju í verkefnum síðustu vikna og mánaða en gríðarleg vinna liggur að baki opnun Mjölnis á nýjum stað. „Við munum bjóða upp á alla sömu tíma og áður eins og brasilískt jiu-jitsu, kickbox, MMA, Víkingaþrek, sjálfsvarnarnámskeið og jóga en bæta við fullbúnum tækjasal. Þá verðum við með hárgreiðslustofu, rakarastofu, nuddstofu og bar þar sem verður hægt að tylla sér niður með þeyting eftir æfingu eða öl yfir UFC á kvöldin. Eins munum við stækka Óðinsbúð sem við vorum með á Seljavegi og bæta við vörum og merkjum.“

Jón Viðar og Sóllilja hafa staðið í ströngu við að koma nýjum húsakynnum Mjölnis í Öskjuhlíð í stand. Opnunarhátíð verður haldin á morgun.

Eins og herstöð
Að sögn Sóllilju er enginn sambærilegur staður á landinu. „Það verður hægt að vera hérna daginn út og inn,“ segir hún og hlær. Einn sem kíkti við um daginn líkti þessu við herstöð og mér fannst það eiga vel við. Við erum grafin inn í klett og umhverfið passar við víkingabraginn sem hefur alltaf einkennt Mjölni.“
Sóllilja segist hafa lært meira á síðustu tveimur mánuðum en á nær allri sinni skólagöngu. „Ég er búin að læra að smíða og gipsa og á öll möguleg og ómöguleg tölvukerfi sem fylgja starfinu.“

Hún segist hálfpartinn hafa leiðst út í markaðsstjórastarfið. „Þegar við Jón Viðar byrjuðum saman í febrúar á síðasta ári datt ég strax inn í Mjölnisfjölskylduna og eignaðist eiginlega 1.400 nýja fjölskyldumeðlimi á einni nóttu,“ lýsir Sóllilja, en mjög þéttur hópur starfsmanna og iðkenda stendur að baki klúbbnum og hafa margir þeirra tekið virkan þátt í flutningunum. „Ég fór strax á kaf í vinnu og hef meðal annars séð um samfélagsmiðla, ljósmyndun og annað markaðstengt. Þegar markaðsstjórinn hvarf aftur til fyrri starfa lá beinast við að ég tæki við og er ég mjög þakklát Jóni Viðari fyrir að gefa mér tækifæri til að sýna hvað í mér býr,“ segir Sóllilja.

Á sér leikkonudraum
Sóllilja gekk í Versló en hyggur ekki á frekara nám í bili. „Mér finnst leiðinlegt að segja það en hefðbundið skólakerfi er að mínu mati svolítið bákn sem hentar mér illa. Ég var til dæmis ekkert sérstaklega góð í stærðfræði og þá leið mér bara eins og ég væri ömur­leg manneskja. Það gerði lítið fyrir sjálfstraustið. Eftir að ég hætti upplifi ég miklu meira frelsi og finnst ég nýta hæfileika mína betur.“

En blundar í þér leikkona? „Já! Ég hef reynt að bæla hana niður og tók til dæmis ekki þátt í leikritum í Versló. Hún er hins vegar að læðast aftan að mér og ég vona að ég fái einhvern tíma tækifæri til að spreyta mig á því sviði.“

Sóllilja og Jón Viðar ákváðu strax eftir fyrsta stefnumót að vera saman.

Búa í sveitasælu
Sóllilja og Jón Viðar festu kaup á húsi í Ölfusi í fyrra. Sóllilja er alin upp í hjá móður sinni, Dísu Ander­main, og fósturföður, Bjarna Grímssyni, í Mosfellsdal og kann því vel við sig í sveitasælunni. „Þó að það sé vissulega gott að geta komist heim til sín á fimm mínútum er enn þá betra að komast aðeins út úr bænum í frið og ró. Við fengum húsið á góðu verði og gátum innréttað að vild. Þar erum við líka nær syni Jóns Viðars sem býr í Hveragerði en erum svo með afdrep í bænum þegar þess þarf, eins og síðustu vikur.

Í kvöld mun Sóllilja leggja lokahönd á undirbúning fyrir opnunar­hátíð Mjölnis í Öskjuhlíð sem hefst klukkan tvö á morgun. „Við munum leiða fólk um svæðið og kynna allt sem í boði verður. Keppnisliðið okkar verður með opna æfingu, við verðum með opinn sjampóbar þar sem fólk getur blandað eigið sjampó og ýmis tilboð. Gunnar Nelson og Sunna Tsunami verða svo að sjálfsögðu á staðnum.

Sóllilja er alin upp við hestamennsku í báðar ættir.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira