Erlent

Íhuga að kalla út þjóðvarðliðið vegna ólöglegra innflytjenda

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir þjóðvarðliðs Bandaríkjanna.
Meðlimir þjóðvarðliðs Bandaríkjanna. Vísir/Getty

Ríkisstjórn Donald Trump er nú að skoða að kalla út allt að hundrað þúsund þjóðvarðliða til þess að safna saman ólöglegum innflytjendum í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í ellefu blaðsíðna drögum að tillögu sem AP fréttaveitan hefur komist yfir. Samkvæmt drögunum myndu þjóðvarðliðarnir grípa til aðgerða í ellefu ríkjum í Bandaríkjunum, ef ríkisstjórar þeirra samþykktu það.

Talsmenn Hvíta hússins segja fregnirnar vera rangar.

Um væri að ræða fordæmalausa hervæðingu löggæslustofnana sem snúa að ólöglegum innflytjendum. Þjóðvarðliðið hefur tekið þátt í innflytjendatengdum aðgerðum áður, en ekki af þessari stærðargráðu.

Ríkin ellefu sem um ræðir eru þau fjögur sem eru við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó; Arizona, Kalifornía, Nýja Mexíkó og Texas. Þar að auki yrðu sjö ríki sem liggja að fyrri fjórum ríkjunum inn í aðgerðunum. Þau eru Oregon, Nevada, Utah, Colorado, Oklahoma, Arkansas og Louisiana.

Talið er að rúmlega ellefu milljónir ólöglegra innflytjenda haldi til í Bandaríkjunum og nærri því helmingur þeirra býr í ríkjunum ellefu.

Samkvæmt AP fréttaveitunni er skjalið dagsett þann 25. janúar og segir í því að meðlimir þjóðvarðliðsins gætu handtekið ólöglega innflytjendur og haldið þeim. Skjalið er sagt hafa verið í dreifingu meðal starfsmanna Homeland Security í tvær vikur.

Talsmenn átta ríkisstjóra, af ellefu, segjast ekki hafa vitað af skjalinu enn.

Segja fregnirnar vera alfarið rangar
Michael Short, einn af talsmönnum Hvíta hússins, segir fréttirnar vera ósannar. Blaðamenn AP segjast þó hafa margsinnis reynt að fá Hvíta húsið til að tjá sig um skjalið áður en fréttin var birt, án árangurs.

Sean Spicer, talsmaður Donald Trump, segir skjalið ekki hafa komið frá Hvíta húsinu og að þetta sé ekki til íhugunar. Hann segist þó ekki geta sagt að þetta hafi hvergi verið til umræðu innan stjórnsýslunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira