Innlent

Sláandi mynd­bönd af slags­málum ís­lenskra ung­linga í lokuðum Face­book-hópi

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Mörg hundruð börn og unglingar á landinu eru meðlimir í lokuðum hópi á Facebook þar sem myndböndum af unglingum í slagsmálum er dreift. Deildarstjóri unglingasviðs hjá frístundamiðstöðinni Kringlumýri segir að starfsmenn hafi áhyggjur af gangi mála. Lögregla hefur fengið ábendingar um síðuna.

Hópurinn heitir Fagmennska og var stofnaður í júlí í fyrra. Meðlimir hópsins eru nú næstum tvö þúsund. Síðan hópurinn var stofnaður hefur fjöldi myndbanda verið dreift sem sýna misgróf slagsmál unglinga. Flest myndböndin sýna slagsmál á milli tveggja eða fleiri unglingsdrengja. Sum þeirra bera með sér að slagsmálin hafi verið skipulögð á meðan önnur benda til þess að einhver hafi tekið upp slagsmálin án vitundar þeirra sem slást.

Þórhildur Jónsdóttir, deildarstjóri unglingasviðs hjá frístundamiðstöðinni Kringlumýri, segir að starfsfólk viti af síðunni. Undir Kringlumýri heyra fimm félagsmiðstöðvar í Laugardal, Háaleiti og í Bústaðahverfi.

„Við sáum þarna einhverja krakka sem eru héðan úr hverfinu. Það er á þessu unglingastigi. Fimmti til tíundi bekkur. Að slást er ekkert grín og það virðast sum vera alvarleg og ekki alltaf með samþykki beggja aðila sem við höfum auðvitað áhyggjur af,“ segir Þórhildur.

Hún segir að starfsfólkið í félagsmiðstöðvunum reyni eftir fremst megi að eiga gott samtal við börnin um afleiðingar myndbandsbirtinga af þessu tagi.

Þórhildur segir að það séu fleiri lokaðir hópar á Facebook þar sem börn hafi aðgang að efni sem foreldrar þeirra væru ekki sáttir með. „og ég held af ef þessi síða verði lokuð þá bara opni önnur. Þetta vex bara. Það koma nýjar síður. Við vitum það alveg þannig að umræðan þarf að eiga sér stað og foreldrar verða að vera meðvitaðir: hvað er barnið að gera á netinu?,“ segir Þórhildur.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni hefur hún fengið ábendingar um umrædda síðu og er málið í skoðun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira