Lífið

Þekktu þingmanninn: Sjómennskan og blaðamennskan nýtast á Alþingi

Snærós Sindradóttir skrifar
Kolbeinn segir AA-bókina hafa gjörbreytt lífi sínu til hins betra.
Kolbeinn segir AA-bókina hafa gjörbreytt lífi sínu til hins betra. Fréttablaðið/Eyþór
Kolbeinn Óttarsson Proppé er nýr þingmaður á Alþingi. 

Hver hefur ferill þinn í stjórnmálum verið?

Flosi vinur minn Eiríksson gerði mig að formanni Æskulýðsfylkingar Alþýðubandalagsins í Kópavogi. Þá var ég 15 ára og þurfti undanþágu, þar sem aldurstakmarkið var 16. Starfaði innan Alþýðubandalagsins og var m.a. formaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík.

Varð varaborgarfulltrúi R-listans og sat í nefndum fyrir hann. Var kosningastjóri VG í Reykjavík 1999 og leiddi lista VG í Suðurkjördæmi 2003, en náði ekki kjöri. Hætti afskiptum af stjórnmálum það ár, en gekk svo aftur í VG 2015 og var kjörinn á þing 2016.

Hvernig líst þér á þingmannsstarfið hingað til?

Mjög vel. Þetta var nokkuð lengi í gang. Nú er hins vegar allt í fullum gangi og starfað í þingsal og í nefndum. Maður finnur að það er hægt að hafa áhrif, en að sjálfsögðu eru því takmörk sett, verandi þingmaður í stjórnarandstöðu.

Það liggja mörg mál undir og mikið sem þarf að kynna sér og starfið að mörgu leyti kaótískt. Það hentar mér vel.

Kolbeinn Óttarsson Proppé ásamt syni sínum.
Hvað úr reynslubankanum nýtist þér í nýja starfinu?

Í raun allt, enda starfið fjölbreytt. Úr sjómennskunni tek ég það að einhenda mér í verkin og ljúka í törn, og úr bóksölunni það að koma fram við fólk af virðingu.

En mest nýtist mér blaðamennskan; bæði þar sem ég skrifaði um stjórnmál og ekki síður varðandi vinnubrögð og vinnuumhverfi. Að vita ekki að morgni hvernig dagurinn verður og þurfa að setja sig inn í fjölbreytt mál á skömmum tíma.

Sérðu fyrir þér að gera stjórnmál að ævistarfinu?

Ég hef aldrei séð fyrir mér að neitt einstakt starf verði mitt ævistarf.

Hvar ólstu upp og hvernig var æskan?

Fyrir fjórtán ára aldur bjó ég, í tímaröð, á eftirfarandi stöðum: Reykjavík, Dalvík, Hafnarfirði, Siglufirði og Kópavogi.

Eftir átta ár í Kópavogi flutti ég svo til Reykjavíkur 1994 og hef búið þar síðan. Æskan var yndisleg og einkenndist af frelsi sem fylgdi sjávarplássunum Dalvík og Sigló. Maður hljóp um allt, lék sér og kannaði, fór í ævintýraferðir upp í fjall og niður í fjöru, og svo jakahlaup og sjóróðra – þegar enginn sá til. Byrjaði snemma að vinna, eða tólf ára gamall í frystihúsinu á Sigló.

Kolbeinn og Karlakór Reykjavíkur
Hvernig nærir þú þig andlega?

Ég les og hlusta á tónlist og líka á podköst og hljóðbækur. Ekkert nærir þó betur en að spila á gítarinn og syngja, oftast Dylan.

En líkamlega?

Göngutúrar. Að ganga með hundinn í náttúrunni, með hljóðbók, eða að hlusta á náttúruna, er yndislegt.

Hvert langar þig mest að ferðast?

Það er misjafnt, aðallega finnst mér gaman að ferðast og skiptir áfangastaðurinn ekki öllu. Núna er það Ítalía.

Hvernig verðu helgarfríum?

Sæki fundi í mannræktandi samtökum, dunda mér með dóttur minni, fer í göngutúra með hundinn, rölti um bæinn, kíki á kaffihús. Bestu helgarnar eru þær sem ég fer í sumarbústaðinn í Þjórsárdal.

Kolbeinn og hundurinn Kolka
Hvaða hljómsveit eða tónlistarmaður er mest spilaður á Spotify-aðgangnum þínum?

Bob Dylan.

Hvað er síðasta myndband sem þú horfðir á á YouTube?

Klippa úr Colbert Report um Donald Trump.

Hvaða bók eða rit hefur haft mest áhrif á líf þitt? Hvers vegna?

Þær eru margar. Silungsveiði í Ameríku eftir Brautigan, af því að ég fór með hana einn á lestarferðalag um Evrópu, las svona 20 sinnum og lærði um furður lífsins og tungumálið.

Frelsið eða dauðinn, eftir Kazantzakis, af því að hún kenndi mér ungum um mikilvægi þess að berjast fyrir hugsjónum sínum en um leið að það getur farið út í öfgar.

En sú sem mest hefur haft áhrif á mig er AA-bókin, hún gjörbreytti lífi mínu til hins betra.

Kolbeinn ásamt dóttur sinni.
Hefurðu lent í lífsháska eða annarri dramatískri lífsreynslu?

Praktíserandi alkóhólisti lendir iðulega í dramatískri lífsreynslu og ekkert dramatískara en viðskilnaðurinn við alkóhólið. En lífsháska, tja?… Allt frá því að vera kominn í flotgalla meðan sjórinn streymir inn í togarann úti í ballarhafi yfir í að hafa næstum keyrt út af.

Sú lífsreynsla sem mest áhrif hefur haft á mig er þó líklega að missa föður minn, tvítugur.

Þú varst í hljómsveitinni Synir Raspútíns. Blundar í þér draumur um að verða rokkstjarna?

Hvað meinarðu með „að verða“? Ertu að gefa í skyn að ég sé ekki rokkstjarna nú þegar? Það vill svo til að hluti af Sonum Raspútíns kemur fram á þorrablóti í kvöld að spila úrval úr „samlede værker“. Þá hlýtur heimsreisan að vera á næsta leiti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×