Golf

Ólafía hafnaði í 30. sæti í Ástralíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafía á mótinu í Ástralíu.
Ólafía á mótinu í Ástralíu. Vísir/Getty

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir náði sínum besta árangri á LPGA-mótaröðinni er hún hafnaði í 30.-39. sæti á ISPS Handa-mótinu í Ástralíu.

Hún lék á tveimur höggum yfir pari í nótt og endaði á að leika á parinu samtals eftir fjóra kepppnisdaga.

Það gekk á ýmsu í nótt. Hún paraði fyrstu þrjár holurnar en fékk svo ekki par aftur fyrr en á elleftu holu. Á þessum kafla fékk hún þrjá fugla, þrjá skolla og einn skramba. Það var afar vindasamt á keppnisvellinum í Adelaide í Ástralíu sem gerði kylfingum erfitt fyrir.

Á síðustu átta holunum fékk hún sex pör, einn fugl og einn skolla og kom í hús á 75 höggum.

Níu aðrir kylfingar enduðu á parinu og deila 30. sætinu. Þeirra á meðal er hin bandaríska Michelle Wie.

Ha Na Jang frá Suður-Kóreu bar sigur úr býtum en hún lék á 69 höggum í nótt og á tíu höggum undir pari samtals. Hanna Madsen frá Danmörku kom næst á sjö höggum undir pari.

Árangur Ólafíu er frábær og setur hana í enn sterkari stöðu á peningalistanum. Hún var meðal þeirra síðustu sem komust í gegnum niðurskurðinn og þurfti að vippa fyrir fugli á átjándu holu til þess, sem tókst. Hún endaði svo í 30. sæti af þeim 75 sem komust áfram. Spilamennska hennar í gær hafði mikið að segja, þar sem aðeins þrjár spiluðu betur en Ólafía.

Næstu tvö mót á mótaröðinni fara fram í Asíu en óvíst er hvort að Ólafía keppi á þeim. Keppt verður í Phoenix í Bandaríkjunum um miðjan mars en líklegt er að Ólafía komist á það mót.


Tengdar fréttir

Ólafía Þórunn bjargaði sér á fuglasöng í lokin

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir hefur nú náð niðurskurðinum á tveimur fyrstu mótum sínum á bandarísku mótaröðinni, LPGA, en GR-ingurinn öflugi átti síðasta fugla-orðið á hringum sínum í nótt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira