Erlent

Trump vísaði til árásar í Svíþjóð í gærkvöldi sem aldrei átti sér stað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á fjöldafundi sínum í gær vísaði Bandaríkjaforsetinn Donald Trump til árásar í Svíþjóð sem aldrei átti sér stað.

Í ræðunni, sem hann hélt frammi fyrir stuðningsmönnum sínum í Melbourne í Flórída, drap forsetinn á þeim tengslum sem hann taldi vera á milli komu flóttamanna og aukinnar hættu á hryðjuverkum.

„Sjáið bara hvað er að gerast í Þýskalandi. Sjáið hvað gerðist í gærkvöldi í Svíþjóð. Hver hefði trúað þessu? Svíar tóku inn mikinn fjölda, þeir eru nú að glíma við vanda sem enginn gat ímyndað sér. Þið sjáið hvað er að gerast um allan heim,“ sagði Trump.

Sjá einnig: Trump kominn aftur í kosningabaráttu

Málið er hins vegar að engar fregnir hafa borist af árásum í Svíþjóð á föstudagskvöld.

Talið er að ummæli Trumps megi rekja til sjónvarpsþáttar sem sýndur var á Fox News á föstudaginn þar sem rætt var við sjónvarpsmanninn Ami Horowitz. Í viðtalinu voru sýnd brot úr heimildarmynd hans sem fjallar um meinta fylgni milli komu flóttamanna til Svíþjóðar og hærri glæpatíðni.

Glæpatíðni í Svíþjóð hefur hins vegar verið nokkuð stöðug síðastliðinn áratug ef marka má tölur sænska dómsmálaráðuneytisins frá árinu 2016.

Netverjar, ekki síst Svíar, höfðu mjög gaman af þessum ruglingi Trump og gerðu óspart gys að hinni meintu árás. Hér að neðan má sjá framlög nokkurra brandarakalla- og kvenna.

Þetta er í þriðja sinn sem forsetinn eða aðrir starfsmenn Hvíta hússins skálda hryðjuverkaárásir. Áður hefur Kellyanne Conway vísað til árásar í Bowling Green sem aldrei átti sér stað og Sean Spicer talaði ítarlega um hryðjuverkaárás í Atlanta sem enginn þekkir til á fundi sínum með blaðamönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×