Erlent

Trump segist ekki hafa verið að tala um neitt sérstakt atvik í Svíþjóð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti segist hafa verið að vísa í frétt þegar hann fullyrti um nýlegar árásir í Svíþjóð á fjöldafundi sínum í dag. Forsetinn birti færslu á Twitter-síðu sinni þess efnis í kvöld. Þá hefur Hvíta húsið sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að Trump hafi ekki átt við neitt sérstakt atvik. Sendiráð Svíþjóðar í Washington krafðist í dag skýringa á ummælunum.

Trump segir á Twitter að hann hafi verið að vísa til fréttar sem birtist á Fox News sjónvarpsstöðinni sem fjallaði um innflytjendur í Svíþjóð. Þá greindi sænska ríkisútvarpið frá því í kvöld að Hvíta húsið hafi sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram komi að Trump hafi verið að tala um aukna glæpatíðni í Svíþjóð, og ekki átt við neitt sérstakt atvik.

Trump talaði á fundi sínum um tengsl á milli komu flóttafólks og hryðjuverka og vísaði máli sínu til stuðnings til árásar sem átti að hafa gerst í Svíþjóð á föstudag. Utanríkisráðuneyti landsins sá ástæðu til þess að leiðrétta það - engin árás hafi verið gerð, og að þá sé ekki ástæða til þess að hækka hættustig í landinu vegna hryðjuverkaógnar.

Svíar hafa furðað sig mjög á þessum ummælum og hafa samfélagsmiðlar logað vegna málsins. Carl Bildt, fyrrum utanríkisráðherra Svíþjóðar, segist steinhissa á orðum Trump. „Svíþjóð? Hryðjuverkaárás? Hvað var maðurinn að reykja?“ segir Bildt í færslu á Twitter.

Umrædda umfjöllun Fox News má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×