Lífið

Segir sögur úr sveitinni

Starri Freyr Jónsson skrifar
Árni Ólafur Jónsson
Árni Ólafur Jónsson

Fjórða sería sjónvarpsþáttanna vinsælu Hið blómlega bú hefst um miðjan febrúarmánuð á Stöð 2 en fyrri þáttaraðir nutu mikilla vinsælda meðal landsmanna og þá ekki síst meðal áhugafólks um matar­gerð.

Fólkið á bak við þættina eru þau Bryndís Geirsdóttir framleiðandi, Guðni Páll Sæmundsson leikstjóri og Árni Ólafur Jónsson sem hefur slegið í gegn með þægilegri framkomu sinni og um leið ósviknum og einlægum áhuga sínum fyrir íslensku hráefni og matargerð sem smitast svo sannarlega til áhorfenda.
Árni segir fjórðu þáttaröðina vera með svipuðu sniði og hinar þrjár.

„Búskapurinn heldur áfram í Árdal í Borgarfirði þar sem ég rækta garðinn minn, sinni dýrunum og held áfram að prófa mig áfram í eldhúsinu með hráefni og tækni. Í þessari þáttaröð koma meðal annars við sögu skapstygg kýr, eldofn, langferðalag, álar og fullt af skemmtilegu, atorkumiklu fólki.“

Þannig breytist uppbygging þáttanna lítið milli þáttaraða að hans sögn.

„Við höldum áfram að segja sögur úr sveitinni og tengjum þær saman með uppskriftum og viðtölum. Það er af nógu að taka og endalaust hægt að finna nýja vinkla og efnistök. Það sem hefur helst þróast yfir árin eru vinnubrögðin og tækjakostur okkar. Hvort tveggja gerir okkur kleift að gera betri og flottari þætti.“

„Ég hef séð þessa grósku víða um landið og hvert sem ég fer hitti ég frumkvöðla sem eru að fást við spennandi hluti,“ ?segir Árni Ólafur Jónsson. ?mynd/egill bjarki jónsson

Fór óhefðbundna leið
Árni ætlaði sér alltaf að verða matreiðslumaður en fór aðra leið að því markmiði en flestir kollegar hans. Hann tók fyrsta árið í kokknum og ætlaði strax á samning sextán ára en ákvað síðan að klára stúdentinn. „Á þeim tíma missti ég áhuga á því að vinna sem kokkur, fór í viðskiptafræði í Háskóla Íslands og vann í reikningshaldi hjá Glitni. Eftir ýmsum krókaleiðum endaði ég að lokum aftur í matreiðslunni, fyrst í New York og svo að lokum í Hinu blómlega búi.“

Þættirnir hafa verið hans ær og kýr síðastliðin fimm ár. Upptökuteymið sem vinnur þættina er fámennt, tökutímabilið er langt og það er alltaf nóg að gera eftir að tökum lýkur hverju sinni. „Inn á milli þáttaraðanna hef ég tekið að mér hin ýmsu verkefni og unnið t.d. á Scandinavian Embassy, sem er eitt besta kaffihúsið í Amsterdam. Í byrjun seinasta árs vann ég í einn mánuð á In de Wulf, sem var Mich­elin-stjörnustaður í Suður-Belgíu en honum var lokað í desember.“

Verðmæti í sveitunum
Við gerð þáttanna undanfarin ár hefur margt komið honum á óvart, t.d. hversu mikil gróskan er í sveitum Vesturlands og hvað er hægt að gera og rækta þar. „Við fundum, til að mynda, allt hráefni og öll efnis­tök fyrstu þáttaraðarinnar eflaust innan 50 kílómetra radíuss frá Árdal. Ég hef séð þessa grósku víða um landið og hvert sem ég fer hitti ég frumkvöðla sem eru að fást við spennandi hluti. Sveitir landsins ættu að sjá sér hag í að styðja við þá og hjálpa, því þeir eru mikil verðmæti og mikilvægir fyrir uppbyggingu landsbyggðarinnar.“

Þar nefnir hann Stellu Dögg Blöndal sem gott dæmi en hana hitti Árni fyrst fimmtán ára gamla þar sem hún var að rækta maís, kúrbít, eldpipar, bufftómata og fíkjur í gróðurhúsi heima á Jaðri. „Nú rúmum fjórum árum seinna rekur hún, ásamt fleirum, sveitamarkaðinn Ljómalind í Borgarnesi þar sem hún selur meðal annars eina bestu melónu sem ég hef smakkað.“

„Ég hef séð þessa grósku víða um landið og hvert sem ég fer hitti ég frumkvöðla sem eru að fást við spennandi hluti,“ segir Árni Ólafur Jónsson.

Getum gert betur
Og hann hefur sterkar skoðanir á úrvalinu í íslenskum matvöruverslunum sem hann segir vera skammarlega lítilfjörlegt. „Auðvitað verður fjölbreytileikinn aldrei eins mikill og á stærri mörkuðum en við getum gert betur. Það ætti til dæmis að vera mun meiri gróska í grænmetisræktun; við getum ræktað mun fleira en tómata, gúrkur, paprikur, nokkrar tegundir af salati, jarðarber og krydd í gróðurhúsum og örfáar tegundir af kartöflum, gulrætur og rófur utan­húss.“

Einnig finnst honum mega gera mun betur þegar kemur að hönnun, pakkningum og markaðssetningu á vörum hér á landi. „Mér finnst það hafa loðað við íslenska framleiðslu í gegnum tíðina hversu illa hún er fram sett. Við erum með úrvalshráefni hringinn í kringum landið, sem í flestum tilfellum er vel unnið, en svo virðist lítið verið hugsað út í fyrrnefnda þætti. Sem betur fer er vitundarvakning hvað þetta varðar og fallega framsettum vörum er alltaf að fjölga.“

Árni ásamt kærustunni, Guju Sandholt, í Central Park í New York.

Góð spretta í Árdal
Matur skipar eðlilega mjög stóran sess í lífi Árna en uppáhaldshráefnin hans koma iðulega úr garðinum í Árdal.

„Ég verð alltaf jafn hissa á því hvað sprettan er góð þrátt fyrir rokið. Þar hef ég ræktað, ásamt Guðna Páli og Bryndísi, úrval af grænmeti og kryddjurtum sem ég hefði ekki getað fengið annars staðar. Þetta eru til dæmis gulrætur í öllum regnbogans litum, gullin- og randabetur, franskt fáfnis­gras, fjöldinn allur af spennandi salattegundum og áhugaverðum kartöfluyrkjum. 

Ef möguleikarnir í Árdal virðast óþrjótandi þá efast ég ekki um að það sé hægt að auka umfangið og bjóða upp á þetta á íslenskum markaði.“

„Ég byrjaði í rauninni ekki að ferðast um Ísland fyrr en ég flutti út til Bandaríkjanna á sínum tíma. Þá uppgötvaði ég Ísland eins og ferðamaður þegar ég kom heim í frí og sá landið með öðrum augum.“

Þegar Árni finnur sér tíma til þess að stíga út úr eldhúsinu finnst honum gott að komast burt og ganga á fjöll og ferðast. „Það eru engir möguleikar á fjallgöngum í Hollandi, þar sem ég bý núna ásamt kærustunni minni, Guju Sandholt. Ég byrjaði í rauninni ekki að ferðast um Ísland fyrr en ég flutti út til Bandaríkjanna á sínum tíma. Þá uppgötvaði ég Ísland eins og ferðamaður þegar ég kom heim í frí og sá landið með öðrum augum.“

Einnig nýtur hann þess að fara á tónleika en þar bjóðast honum mörg tækifæri þar sem Guja er söngkona. „Einnig spila ég borðspil í góðra vina hópi, læri á gítar, les um nýjustu tækni og vísindi. Núna er ég að dunda mér við að fikta í Raspberry Pi og Arduino en markmiðið er að setja saman og forrita græju til að stýra brugggræjum eða gerjunarskáp.“

Ãrni Ólafur Jónsson Hið blómlega bú

Eldar mikið heima
Heima fyrir eyðir hann eðlilega miklum tíma í eldhúsinu og reynir að elda eins mikið þar og hann getur. „Þar sem ég er ekki að vinna þessar venjulegu vaktir á veitingahúsum þá hef ég tíma, nennu og áhuga til að elda heima við. Stundum kemur það þó fyrir að ég er svo djúpt sokkinn í einhverja pælingu varðandi mat, sem er kannski ekki praktísk varðandi matargerð, að ég nenni ekki að elda.“

Maturinn sem borinn er á borð heima er æði misjafn að hans sögn og fer í rauninni eftir því hvað hann er að lesa og grúska í hverju sinni. „Ef ég er algjörlega hugmynda­snauður þá finnst mér fátt betra en léttsoðinn nætursaltaður þorskur með nýjum kartöflum. Ég þarf síðan að vera duglegri að skapa pláss fyrir Guju í eldhúsinu,“ segir hann og hlær.

Sumarið fram undan er algjörlega óskrifað blað enda segist hann hreinlega ekki hafa haft tíma til að skipuleggja það. „Ég er nú á fullu í eftirvinnslu á fjórðu þáttaröðinni og fleiru tengdu Hinu blómlega búi. Þegar því er öllu lokið þá hefði ég ekkert á móti því að skella mér í stutt frí með henni Guju og slappa aðeins af. Síðan er ýmislegt í pípunum en ef einhvern vantar kokk í fjallaferðir í sumar þá er ég mikið til í það.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira