Viðskipti innlent

Blönduð einkavæðing

Stjórnarmaðurinn skrifar

Um áramót stóðu hreinar skuldir ríkissjóðs í rúmum 750 milljörðum króna samkvæmt tölum frá fjármálaráðuneytinu. Heildarskuldastaðan var hins vegar um 1.100 milljarðar króna. Á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs námu vaxtagreiðslur ríkissjóðs tæpum 70 milljörðum.

Ísland er lítið skuldsett land í sjálfu sér en hreinar skuldir ríkissjóðs nema rétt ríflega 30% af vergri landsframleiðslu sem telst hóflegt í alþjóðlegu samhengi. Engu að síður er áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hagræða mætti í ríkisrekstrinum og mæta þannig æ háværari og sanngjörnum kröfum um aukin framlög til heilbrigðismála og annarra innviða sem þurfa að þola aukinn átroðning með sívaxandi ferðamannastraumi.

Í því samhengi er athyglisvert að þær sömu raddir og krefjast aukinna framlaga til heilbrigðismála og annarrar grunnþjónustu mega alls ekki heyra minnst á sölu ríkiseigna og beita gjarnan fyrir sig skammaryrðinu „einkavæðing“. Það er aftur á móti ekki hið sama að aðhyllast hreina einkavæðingu annars vegar eða skynsamlega aðkomu einkaaðila að ríkisrekstri hins vegar.

Þannig hefur norski olíurisinn Statoil verið skráður á markað að hluta um áratugaskeið. Félagið er 70% í eigu norska ríkisins og afgangurinn í eigu fjárfesta á markaði. Ekki hefur annað heyrst en að þessi blanda hafi reynst vel. Einkafjárfestarnir veita aðhald og koma með sérþekkingu að borðinu, auk þess sem almenningur á greiðan aðgang að félaginu sem fjárfestingarkosti gegnum hlutabréfamarkaðinn. Ríkið veitir svo kjölfestu.

Ríkið á margar seljanlegar eignir. Má þar nefna hluti í bönkunum, Landsvirkjun og Isavia. Einhverjar þessara eigna mætti vafalaust selja að fullu. Aðrar eignir, eins og t.d. Landsvirkjun, mætti selja að hluta eftir norsku leiðinni.

Þannig mætti kannski sætta sjónarmið og finna hinn gullna meðalveg. Greiða skuldir ríkissjóðs niður að allt að því fullu, og nota þann vaxtakostnað sem sparast til að styrkja grunnstoðirnar. Það telst varla mikil hægrimennska að vilja styrkja velferðarkerfið. Eða hvað?

Uppfært kl. 16:42: Í upphaflegri útgáfu pistilsins sagði að vaxtagreiðslur ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum síðasta árs hefðu numið tæpum 200 milljörðum króna. Það er ekki rétt.

Stjórnarmaðurinn er sigldur innherji með puttann á púlsinum. Stjórnarmaðurinn skrifar í Markaðinn í Fréttablaðinu á miðvikudögum og liggur ekki á skoðunum sínum um menn og viðskiptaleg málefni.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
HEIMA
3,6
4
34.130
ORIGO
3,41
11
64.165
HAGA
3,34
9
116.729
FESTI
3,23
14
192.368
SIMINN
3,2
19
269.039

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICEAIR
-3,39
97
445.720
GRND
0
2
1.506
MARL
0
23
231.586
EIM
0
11
201.996
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.