Innlent

Helgi Jóhannsson látinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Helgi Jóhannsson var framkvæmdastjóri Samvinnuferða á árunum 1984 til 2000.
Helgi Jóhannsson var framkvæmdastjóri Samvinnuferða á árunum 1984 til 2000. Mynd/Stöð 2.

Helgi Jóhannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samvinnuferða, er látinn, 65 ára að aldri, eftir erfið veikindi. Helgi var í aldarfjórðung einn helsti framámaður íslenskrar ferðaþjónustu og var forseti Bridgesambands Íslands þegar Íslendingar urðu heimsmeistarar og unnu Bermúdaskálina árið 1991. 

Helgi var sæmdur gullmerki Bridgesambandsins í nóvember síðastliðinn þegar þess var minnst að aldarfjórðungur var frá því Bermúdaskálin vannst  í Yokohama í Japan. Jafet Ólafsson, forseti sambandsins, sagði þá í ávarpi að Helgi hefði verið arkitektinn á bak við heimsmeistaratitilinn.

Úr hófi Bridgesambands Íslands í nóvember þegar Helgi var sæmdur gullmerki sambandsins.Stöð 2/Einar Árnason.

Í viðtali á Stöð 2 af því tilefni komu Helgi og eiginkona hans, Hjördís Bjarnason, fram og lýstu því hvernig MND-sjúkdómurinn olli straumhvörfum í lífi Helga og fjölskyldunnar en Helgi var bundinn hjólastól og öndunarvél síðustu æviár sín. Fylgst var með Helga í hópi briddsfélaga eina kvöldstund á Borgarspítalanum en hann tjáði sig með því að rita skilaboð á tölvuskjá með augunum. 

Meðan á myndatöku stóð nýtti Helgi skjáinn til að senda þessi skilaboð:

„Ég nýt þess að ég er búinn að spila lengur en þeir. En ef þeir ná mér í getu er ég viss um að þeir halda áfram að koma. Ég er viss um að þeir kæmu ef ég hefði Alzheimer. Þessvegna segi ég: Góðir vinir eru gulli betri. Þetta er mér ómetanlegt." 

Helgi lést á heimili sínu á mánudagskvöld. Hann lætur eftir sig eiginkonu, þrjá syni og sex barnabörn. 

Hér í spilaranum að neðan má sjá þáttinn með Helga í hópi spilafélaganna en þar var nánar fjallað um glímu Helga við sjúkdóminn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×